140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:47]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki eins og að þetta mál sé fyrst að koma til umræðu í þinginu núna. Það á sér langan aðdraganda. Ferillinn hófst með margra mánaða vinnu rannsóknarnefndar Alþingis sem lauk með níu binda skýrslu sem þingið fékk í sínar hendur. Síðan hélt það áfram með þingmannanefndinni, síðan var skipaður sérstakur saksóknari og saksóknarnefnd. Öll efnisatriði málsins hafa verið tekin til yfirvegunar og ígrundunar á þessum vettvangi en núna hafa engin efnisleg rök komið fram að mínu viti sem réttlæta inngrip okkar í gang (Forseti hringir.) málsins.