140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér enginn ágreiningur um það að undir ákveðnum kringumstæðum gæti þingið sjálft ákveðið að taka ákæruefnin til endurskoðunar, en þá verða að koma fram efnisleg rök. Það er bara ekki nóg að þyrla upp vafa á tilfinningalegum eða pólitískum forsendum. Það verður að vera einhver skynsamleg innstæða til að réttlæta það að þingið taki slíkt mál til greina og til umræðu eða þinglegrar meðferðar yfirleitt. Ég ítreka það sem ég er margbúin að segja, og margir þingmenn í dag, þessi efnislegu rök hafa ekki komið fram. Það er ekkert sem varpar neinum vafa á ákæruefnið sjálft.

Það eina sem fært er til rökstuðnings því að falla frá ákærunni er að vísað hafi verið frá tveimur ákæruatriðum af sex og að þingmönnum líði illa. Það eru ekki efnisleg rök.