140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:56]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vísa þessu til föðurhúsa. Málflutningur hv. þm. Bjarna Benediktssonar stenst enga skoðun. Þessi þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir er rökleysa frá upphafi til enda. Það er bara þannig. Það verður að vera — (JónG: Ertu dómari?) ég er með málfrelsi, hv. þingmaður, og stend í ræðustól að fjalla um mál (Gripið fram í.) sem þið hafið lagt mikið á þingið til að fá hingað til umræðu. Ég vona að ég fái þá að neyta málfrelsis míns (Gripið fram í.) nokkurn veginn ótrufluð af hv. þm. Jóni Gunnarssyni sem grípur fram í. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Gefið þingmanninum hljóð.)

Það verður að liggja einhver skynsemi í því hvaða afstöðu maður tekur til mála af þessu tagi. Það er ekki nóg að þyrla upp áróðursbrögðum og segja: Nú er kominn vafi um málið. Vafinn verður að vera lögfullur og hann verður að geta staðist einhverja lögfræðilega eða að minnsta kosti skynsamlega skoðun.