140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar þetta mál kom upphaflega fram fyrir jólin var því talsvert haldið fram að það væri ekki þingtækt. Það fór síðan til sérstakar skoðunar á vegum Alþingis og niðurstaða hæstv. forseta var að það væri fullkomlega þingtækt. Ég hafði vænst þess að þar með gætum við skilið við þá umræðu vegna þess að ljóst var orðið að þetta var úrskurður forseta og þó að einstakir þingmenn kynnu að hafa aðrar skoðanir hlytu þeir að minnsta kosti að virða þá niðurstöðu og reyna að ræða málið efnislega. Tilgangur minn með því að taka til máls núna er einfaldlega að reyna að fjalla efnislega um tillöguna í ljósi þess að hún er komin á dagskrá. Ég vænti þess að farið verði með málið eins og önnur sem lögð eru fyrir Alþingi, umdeild eða ekki umdeild, að þess sé freistað að leiða það til einhvers konar efnislegrar niðurstöðu með þeim hætti sem Alþingi gerir á hverjum tíma, þ.e. fyrst er málið reifað í fyrri umræðu málsins eins og þegar um þingsályktunartillögur er að ræða, því er síðan vísað til nefndar — og menn geta haft skoðanir á því hvaða nefnd eigi að fá málið í hendurnar — sem fer um það sínum höndum og lýkur málinu með því að vísa því aftur til Alþingis til endanlegrar ákvörðunar. Það höfum við gert við umdeild mál og þannig höfum við leitt þau til lykta. Niðurstaðan getur síðan verið þannig að við kunnum að hafa á henni mismunandi skoðanir. Engu að síður er þetta hið lýðræðislega ferli. Þess vegna harma ég mjög að hér skuli liggja fyrir frávísunartillaga sem hefur þann tilgang einan að koma í veg fyrir að við getum tekið efnislega á málinu eins og þingsköp Alþingis kveða á um.

Það liggur auðvitað fyrir að Alþingi getur afturkallað þessa ákvörðun sína frá haustdögum 2010 og út á það gengur tillagan. Ástæðan er ósköp einföld. Þetta mál er á forræði Alþingis. Alþingi hefur ákæruvaldið í þessum efnum. Það kemur til dæmis fram í frávísunartillögugreininni sem lögð var fram í dag að Alþingi hefur þetta ákæruvald.

Nú spyrja menn: En hvers vegna er ástæða til að taka þetta mál til endurskoðunar? Hefur eitthvað breyst? Það hefur verið mikið kallað eftir því í þessari umræðu. Hv. þingmaður sem talaði áðan fullyrti til dæmis að ekki hefðu komið fram efnisleg rök fyrir því að eitthvað hefði breyst. Ég mótmæli þessu. Það kann að vera að menn hafi skiptar skoðanir á því hvort þau rök séu nægjanleg. Það kann að vera að menn hafi skiptar skoðanir um efni þeirra ábendinga og tillagna sem hafa komið fram um að ýmislegt hafi breyst í forsendum þess að ákvörðun var tekin um að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra. En engu að síður hafa komið fram efnisleg rök. Ég ætla að tína til nokkur.

Í fyrsta lagi hlýt ég að vekja athygli á að ýmislegt hefur breyst meðal annars við það að nú er komin niðurstaða Hæstaréttar um hin svokölluðu neyðarlög. Hún sýnir fram á réttmæti þeirra aðgerða sem gripið var til á haustdögum 2008 og til viðbótar skulum við ekki gleyma því að umræðan árið 2008 stóð ekki síst um það hvort ríkisvaldið ætti að koma til frekara liðsinnis bönkunum með því að veita þeim lausafjárfyrirgreiðslu. Því var ekki sinnt. Ríkisvaldið mátti sæta miklum ákúrum fyrir það af ýmsum, en nú sjáum við auðvitað að það hefði ekki verið skynsamlegt. Skynsamlegra var að fara þá leið sem farin var haustið 2008.

Við erum líka búin að fá, frá því að þessi ákvörðun var tekin á sínum tíma, miklu skýrari mynd af hinni alþjóðlegu þróun og hvernig hún hafði áhrif á ýmislegt sem gerðist hjá okkur og leiddi til hrunsins þótt ég muni síst af öllu segja að það sé hin eina ástæða fyrir hruninu. Menn verða hins vegar að hafa þá mynd líka í huga til að skilja heildarmyndina.

Síðan skiptir gríðarlega miklu að landsdómur hefur vísað frá mjög veigamiklum atriðum og tekið þannig afstöðu til þeirra. Ég fullyrði að þegar við skoðum þessi mál í samhengi er ljóst að engum hefði dottið í hug að ákæra fjóra ráðherra á grundvelli þeirra ákæruatriða sem nú standa eftir og eru til meðhöndlunar hjá landsdómi.

Við skulum bara taka dæmi eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi varðandi ábendinguna um Icesave-samninga. Það má skilja þetta sem svo að menn segi að íslenska ríkið beri einhverja ábyrgð á Icesave-innlánunum. Málflutningur íslenskra stjórnvalda hefur einmitt verið sá að svo sé ekki. Það er sá málflutningur sem við erum einmitt að færa fram fyrir EFTA-dómstólnum eins og allir vita og allir hafa verið sammála um að þannig ættum við að fara í þessi mál.

Einnig hefur komið fram vilji ýmissa þeirra þingmanna sem áður stóðu að ákærunum til að falla frá þeim. Það skiptir máli. Það skiptir máli ef ákæruvaldið sem Alþingi er hefur aðra skoðun eins og skilja má af þeim yfirlýsingum sem hafa komið frá ýmsum einstökum þingmönnum sem áður stóðu að ákærunum, um að þeir vildu gjarnan að þessi mál yrðu endurskoðuð. Það er talað um að þetta sé eitthvað tilfinningaþrungið en ég verð bara að vísa til þess að þessir þingmenn hafa fært sín rök fyrir því. Þau rök standa fyrir sínu. Menn geta haft ýmsar skoðanir á þeim en til þeirra þarf líka að taka afstöðu.

Síðan er það sú niðurstaða sem fékkst og hefur verið mjög mikið rædd, að ákæra aðeins einn hæstv. fyrrverandi ráðherra. Veigamikil rök hafa líka verið færð fyrir því að það geti út af fyrir sig, nú þegar menn skoða málið aftur, falið í sér tilefni til að taka það upp aftur eins og lagt er til í þingsályktunartillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar.

Eins og formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, sagði í ræðu sinni fyrr í dag telur hann að mistök hafi orðið við afgreiðslu málsins. Eftir niðurstöðu málsins hafi málatilbúnaður meiri hluta nefndarinnar verið meira og minna laskaður. Hann vekur líka athygli á því að eins og málið var lagt fram var ekki nein spurning reist um aðalmann og hlutdeildarmann heldur fjóra ráðherra sem, eins og hann sagði í ræðu sinni, með leyfi virðulegs forseta: „sem allir báru hliðstæða ábyrgð, ég vil segja sambærilega ábyrgð.“

Þetta eru allt rök sem menn geta auðvitað haft skiptar skoðanir á, en þetta eru efnisleg rök sem færa má fyrir því að eðlilegt sé að taka þetta mál upp að nýju. Það blasir þess vegna við öllum að það sem eftir stendur hefði aldrei getað orðið grundvöllur raunverulegrar málsóknar. Ekki er verið að grípa inn í málsmeðferð réttarins með óeðlilegum hætti. Þvert á móti. Við slíkar aðstæður er ljóst að ákæruvald í hvaða máli sem er mundi falla frá ákæru. Það væri ekki óeðlilegt inngrip í réttarkerfið, þvert á móti væri það í anda réttarríkisins og því grundvallaratriði íslensks réttarfars og réttarfars lýðræðisríkja almennt að bregðast einmitt þannig við aðstæðum eins og nú blasa við.

Nú hefur verið sagt að saksóknari Alþingis hafi ekki haft atbeina að þessu máli. Saksóknari Alþingis hefur ekki gert kröfu til þess að þetta mál sé endurupptekið. Þá verðum við að líta á það að Alþingi eitt hefur samkvæmt stjórnarskránni forráð á því hvort mál af þessu tagi sé höfðað, þar með að sjálfsögðu líka forræði á því hvort málshöfðun verði takmörkuð eða horfið frá henni að öllu eða nokkru leyti. Á þetta hafa fræðimenn bent síðustu daga. Síðan hefur ákveðið atriði bæst við, eins og prófessor Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, segir í blaðagrein, með leyfi virðulegs forseta:

„Þá bætist það við að samkvæmt 51. gr. landsdómslaga gilda nú 2. mgr. 153. gr. og b-liður 1. mgr. 170. gr. sakamálalaga um meðferð mála fyrir landsdómi. Í fyrrnefnda ákvæðinu er ákæranda veitt heimild til að afturkalla ákæru allt þar til dómur er uppkveðinn. Verður mál þá fellt niður samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu. Gerist það með einfaldri bókun í þingbók nema ágreiningur rísi á milli aðila. Ákærandinn í máli fyrrverandi forsætisráðherra er Alþingi samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar. Alþingi hefur því skýra lagaheimild til að afturkalla málshöfðun á hendur fyrrverandi forsætisráðherra. Ekkert í stjórnarskránni takmarkar þetta vald Alþingis …“

Þetta skiptir auðvitað gríðarlega miklu.

Síðan vil ég víkja að einu sem ekki hefur verið rætt hérna en það er grundvallarspurningin um það hvenær er ákært. Það er auðvitað ákært þegar ákæruvaldið telur að meiri líkur en minni séu á að viðkomandi verði sakfelldur en ekki sýknaður. Nú skulum við aðeins hyggja að. Nú hefur það nefnilega gerst á síðustu dögum að einstakir hv. þingmenn hafa tjáð sig um þetta, meðal annars hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Magnús Orri Schram sem sat í þingmannanefndinni og lagði til á sínum tíma að þrír ráðherrar yrðu dregnir fyrir landsdóm. Hann skrifaði í Fréttablaðið 14. júní síðastliðinn, með leyfi virðulegs forseta:

„Með því er ekki sagt fyrir um sekt eða sakleysi, enda er það landsdóms að komast að efnislegri niðurstöðu og ber ég fullt traust til þess að þar njóti Geir sanngjarnrar og réttlátrar málsmeðferðar og að málinu ljúki með efnislega réttri niðurstöðu.“

Hann telur að það væri mjög farsælt fyrir Geir Haarde, ef hann er saklaus, að fá stimpil á það frá landsdómi um að svo sé.

Hér erum við komin inn á hættulega braut. Hér er ákæruvaldið ekki í raun og veru að segja að það séu meiri líkur á sekt en sýknu. Hér eru menn komnir í gamalkunnugt og hættulegt far, „let them deny it“ eða látum þá neita því. Þá er illa (Forseti hringir.) komið fyrir Alþingi. Þá er illa komið fyrir íslensku réttarfari ef búið er að snúa þannig við málunum (Forseti hringir.) að menn þurfi að sanna sakleysi sitt fyrir dómi.