140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kom hér upp til að ræða efnislega við hv. þingmann um staðhæfingar hans fyrr í ræðunni, en því miður verð ég að spyrja hann um það sem hann sagði undir lokin. Hann bar það upp á Magnús Orra Schram — í fyrsta lagi kallaði hann hann ákæruvaldið sem hv. þingmaður Magnús Orri Schram er ekki heldur hluti ákæruvaldsins í þessu einstaka máli á einum punkti. Í öðru lagi var hv. þingmaður með rangfærslur í garð Magnúsar Orra Schrams og hélt því fram að hann væri nú á annarri skoðun en hann var, ef ég hef skilið þingmanninn rétt og um það er ég að spyrja hann, um sekt eða sakleysi í málinu.

Þetta er það sama, forseti, og Bjarni Benediktsson hóf umræðuna með í dag, með því að spyrja einstaka þingmenn um hvort þeir væru vissir um að Geir Haarde væri sekur. Er hann sekur eða saklaus, spurði tillöguflytjandinn. Það er eins og þessir menn hafi ekki verið hérna, enda efast ég um það að þeir hafi verið það. 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins þurftu ekki að hugsa sig um, þeir greiddu allir atkvæði eins. Þeir gera sér ekki enn þá grein fyrir því að það sem við stóðum frammi fyrir á sínum tíma var ekki hvort menn væru sekir eða saklausir heldur hvort meiri eða minni líkur væru til sakfellingar. Það fengum við tuggið ofan í okkur af færustu lögfræðingum með reynslu af ákæruvaldinu. Út á þetta gengur málið.

Ég er sömu skoðunar og Magnús Orri Schram um að hollast og heppilegast fyrir Geir Haarde, og hefði svo sem verið það fyrir fleiri, sérstaklega úr því sem komið er nú, að standa fyrir dómnum, að verja sig, að fá tækifæri til að losna við gruninn um sekt með sýknu, eða til að fá skorið úr um sökina sem hann er ákærður fyrir. Og það er alveg fráleitt fyrir hann persónulega, af því að menn eru að vorkenna honum, að standa uppi með það sem eftir er af lífinu eins og herðakistil á (Forseti hringir.) bakinu að hafa ekki fengið þann úrskurð.