140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Því miður þarf ég meiri tíma til að snúa ofan af útúrsnúningi hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar en ég hef hér. Það sem ég vil segja er þetta:

Hv. þingmaður heldur því fram að mál þeirra hv. þm. Bjarna Benediktssonar sé þannig vaxið að af því að þeir telja sig hafa rök til að þingið snúi við ákvörðun sinni, eigum við að skoða þau rök. Þá verða þau rök, forseti, að vera málefnaleg. Þau verða að vera þannig að við útgáfu ákærunnar hafi verið byggt, þannig að ég vitni í tillögu til rökstuddrar dagskrár, á röngum forsendum í grundvallaratriðum eða að nýjar upplýsingar hafi komið fram. Hvaða nýju upplýsingar eru taldar fram? Það er að Hæstiréttur hafi fjallað um neyðarlögin. Var hv. þingmaður ekki staddur hér þegar þessi umræða var tekin á sínum tíma og þessi mikla atkvæðagreiðsla fór fram? Jú, hann var það, vegna þess að ég sat við hliðina á honum, man eftir honum. Hann stundi þungan og kenndi Samfylkingunni um þegar úrslitin urðu ljós, eins og hann hefði staðið í einhverjum samningaviðræðum við Samfylkinguna. Hann var að minnsta kosti ekki í samningaviðræðum við mig.

Hvaða rök önnur telur hv. þingmaður fram? Þau eru nánast engin. Þau eru að hrunið hafi verið „svokallað“ og stafað af alþjóðlegum aðstæðum. Það eru mikil rök. Hann segir að landsdómur hafi vísað frá tilteknum ákæruatriðum. Já, en þá standa sex eftir, forseti, sem landsdómur hefur ekki vísað frá og hinn ákærði stendur frammi fyrir og tekist er á um í dómnum. Svo er vitnað til þeirra þingmanna sem hafa skipt um skoðun og gerðu mistök á sínum tíma og telja að forseti Alþingis hafi einnig gert það, sem eru ekki góð rök í þessu máli.

Aðalrökin eru þessi: Af því að við viljum það þá eigið þið að taka ykkur tíma og hafa landsdóm á milli steins og sleggju, hafa saksóknarann á milli skips og bryggju, til að skoða þau rök sem við færum fram þótt þau séu í raun og veru engin. Þetta væri, forseti, (Forseti hringir.) skiljanlegt af nýliða á þinginu sem kæmi hér inn með rauða kverið í höndunum, en ekki af manni (Forseti hringir.) sem hefur setið hér í nánast 20 ár og veit hvernig hlutirnir gerast í samfélaginu.