140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að ég er að reyna að gera hið ómögulega, að reyna að koma málefnalegum rökum til skila til hv. þingmanns. Ég átti ekki von á því að hv. þingmaður mundi fallast á málefnaleg rök mín. Hann afgreiddi þau þannig að ekki sé á þetta hlustandi og menn eigi ekkert að gera með þetta, þetta sé allt saman ómerkilegt. Hann fellir þessa dóma vegna þess að hann talar eins og hann sé sá eini sem viti.

Það sem við erum að segja er einfaldlega þetta: Við höfum tíundað og lagt á borðið málefnaleg rök. Menn geta síðan haft skiptar skoðanir á þeim. En er þá ekki eðlilegt, eins og í öðrum álitaefnum sem koma á borð alþingismanna, að við reynum að leiða þessi mál, þessi ágreiningsefni, til lykta með þeirri aðferð sem þingið hefur, þ.e. að ræða málið í fyrri umræðu, koma því til nefndar, láta þar fara fram efnislega umræðu, fara yfir þau efnislegu rök sem við höfum lagt fram og hv. þingmaður dæmir svo léttvæg, og leggja síðan málið aftur á borð alþingismanna þannig að við getum tekið afstöðu til þess.

Það á ekki að vera þannig að hv. þm. Mörður Árnason þó hann þykist alltaf vita alla hluti manna best, að hann einn geti ráðið því og komið í veg fyrir það með hávaða sínum að málið fái efnislega meðhöndlun. Það á ekki að vera þannig og er ekki þannig í þingsköpum Alþingis. Gert er ráð fyrir því að mál séu leidd til lykta með málefnalegri hætti en það.