140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:26]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Einn af einkennilegum fylgifiskum þessarar mjög svo einkennilegu tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar er að hann vill vísa málinu til saksóknarnefndar Alþingis sem fjölmargir hafa nú bent á að þá væri, ef það væri leyfilegt, alveg eins hægt að vísa þessu til Þingvallanefndar eða Norðurskautsráðsins eða hvað það nú heitir allt saman. Saksóknarnefndin er ekki ein af föstum nefndum þingsins og forseti Alþingis leitar nú örugglega logandi ljósi, og búinn að gera það allan eftirmiðdaginn, að leið til þess að geta orðið við beiðni formanns Sjálfstæðisflokksins, geri ég ráð fyrir. Það er ekki enn þá búið að úrskurða í málinu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, Steingrím J. Sigfússon, um hvað honum finnst um þá tillögu að málinu verði vísað til saksóknarnefndar eða Þingvallanefndar eða bara eitthvert?