140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rifjaði upp aðdraganda þessa máls eingöngu til þess að vekja athygli á því að á þeim tíma var fullur vilji til þess að fara vel ofan í öll þau mál sem sneru að efnahagshruninu og það var gert með rannsóknarnefnd Alþingis. Það má auðvitað deila um ýmis efnisatriði sem þar getur að líta, en það er ekki efni þess sem ég ætla að fjalla um núna.

Síðan er það stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir og er efni þeirrar þingsályktunartillögu sem við ræðum. Það er alveg ljóst mál að um efni þeirrar tillögu er ágreiningur. Hvernig leysum við þann ágreining? Hvernig leiðum við hann til lykta? Jú, við gerum það með þeim hætti sem við höfum búið okkur undir að gera með þeim leikreglum sem við höfum búið til hér á Alþingi. Ég fór yfir þær hérna. Ég er einfaldlega að kalla eftir því hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála mér um það að skynsamlegast sé í þessu máli að leiða það til efnislegra lykta, ekki með því að vísa málinu frá áður en það fær þá efnislegu umræðu og meðhöndlun sem það verðskuldar og þarf á að halda heldur með því að gera það með þeim hætti sem ég hef þegar rakið.

Það er einfaldlega þannig að ákæruvaldið hefur á öllum stigum möguleika á því að afturkalla ákærur sínar. Það á við í öllum dómsmálum og þar er ekki talað um að verið sé að seilast inn á verksvið dómsins. Í sakamálalöggjöf okkar er einfaldlega gert ráð fyrir því.

Það sem undrar mann er að menn segi sem svo að þær reglur sem við teljum vera hluta af okkar réttarríki, reglur sem allar þjóðir sem gera kröfu til að teljast réttarríki hafa tileinkað sér, gildi ekki þegar kemur að því að takast á við spurninguna um ráðherraábyrgð heldur einhverjar allt aðrar réttarfarsreglur. Það er einfaldlega gert ráð fyrir því í landsdómslögunum að þar sem lögunum sleppir taki við önnur lög eins og lög um sakamál sem gera þá ráð fyrir því að ákæruvaldið geti afturkallað ákærur sínar. Það eru fjölmörg dæmi um það, m.a. mjög nýleg dæmi um að ákæruvaldið hafi gert það.