140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er sannarlega sammála hv. þingmanni um að það sé fáránleg tillaga að vísa þingsályktunartillögu sem fjallar um starfshætti og starfsemi Alþingis til Þingvallanefndar og jafnfáránlegt að vísa henni til saksóknarnefndar.

Ég verð hins vegar að segja það, frú forseti, að ég tel ekki að forseti Alþingis eigi að úrskurða um það hvert tillagan eigi að fara. Það er Alþingi sem ákveður hvað um þessa tillögu verður. Ég styð að henni verði vísað frá. Nái það ekki fram að ganga tekur Alþingi auðvitað sjálft sjálfstæða ákvörðun um það hvert þessi tillaga fer, í hvaða þingnefnd tillagan fer. Ég undrast svolítið að menn skuli kalla eftir einhverjum úrskurði frá forseta um það. Ég sé ekki að það komi forseta nokkuð við. Það liggur fyrir tillaga frá flutningsmanni, það er venjan, síðan tekur Alþingi ákvörðun. (Forseti hringir.)