140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. „Það er gott að vera vitur eftir á og það er rétt að vera vitur eftir á geri maður mistök,“ sagði hv. þm. Atli Gíslason hér fyrr í dag. Mér þótti þetta stórmannlegt af hv. þingmanni sem öðrum þingmönnum fremur vann í þessu máli og bar upp þá ákæru á hendur fjórum ráðherrum sem allir vita hverrar afdrif urðu.

Hér erum við að ræða þingsályktunartillögu frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Aðrir hv. þingmenn sem þátt tóku í þessari atkvæðagreiðslu á sínum tíma hafa talað með svipuðum hætti hér í umræðunni og látið skoðanir sínar í ljós í blaðagreinum og öðrum fjölmiðlum á undanförnum dögum og vikum. Ég get nefnt hæstv. innanríkisráðherra, Ögmund Jónasson, sem talaði um að mistök hefðu verið gerð. Fyrr í dag sagðist annar nefndarmaður úr Atlanefndinni svokölluðu, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, vera sammála þeim sjónarmiðum sem fram komu í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Eins og ég sagði áðan þykir mér þetta stórmannlegt. Fólk á oft erfitt með að viðurkenna mistök og erum við stjórnmálamenn svo sannarlega ekki undanþegin því og mættum við öll væntanlega gera betur í þeim efnum.

Umræðan hérna í dag hefur efnislega verið ágæt, góð á köflum og að mestu leyti málefnaleg. Menn hafa skipst á skoðunum og fært fyrir þeim rök, og gagnrök fyrir því hvort þeir styðji þá tillögu sem hér liggur fyrir eða ekki. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, varpaði hérna fram þremur grundvallarspurningum, m.a. hvort einhverjar þær forsendubreytingar hefðu orðið sem réttlættu það að afgreiða þessa tillögu og draga ákæruna til baka. Síðan varpaði hann fram spurningunni hvort Alþingi mætti bregðast við. Fleiri hafa gert það hér, spurt hvort Alþingi mætti fara inn í málið. Síðan varpaði hæstv. ráðherra fram þeirri spurningu hvort það væri eitthvað sem menn ættu að gera og vildu gera. Hann svaraði þessum þremur spurningum fyrir sitt leyti í umræðunni og hef ég svo sem ekkert út á það að setja þó að ég sé í grundvallaratriðum ósammála þeirri niðurstöðu sem hann komst að í öllum þremur spurningunum.

Síðan talaði ráðherrann einnig um að menn væru hér að skiptast á skoðunum en samt ættum við efnislega ekkert að greiða atkvæði um þetta mál. Hann sagðist samþykkur því að tillögunni yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá eins og liggur hér fyrir þannig að við ættum ekki að fá fram efnislega niðurstöðu í þessu máli. Þar er ég ósammála. Þar hefur mér fundist umræðan í dag verða ómálefnaleg.

Við getum sannarlega verið ósammála um þessa hluti og erum það. Þetta mál var á sínum tíma afgreitt með litlum mun í þingsalnum, 33:30. Við vitum alveg hvernig menn hafa fært fyrir því rök. Ég ætla ekki á þeim stutta tíma sem ég hef hér í dag að endurtaka þau rök. Ég tel að menn viti hvar ég stend í þeim málum. Ég greiddi, ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, atkvæði gegn ákærum á hendur öllum fjórum ráðherrunum. Ég tel enga ástæðu til að vísa þessu máli frá. Eins og hæstv. ráðherra benti á og eins og fram hefur komið úrskurðaði forseti þingsins að þessi tillaga væri þingtæk. Hún er hér til umræðu og þá er mér algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna í ósköpunum við eigum ekki að leyfa henni að fá þinglega meðferð, ræða þau álitamál sem menn hafa varpað hér fram við sérfræðingana sem gerst þekkja og hafa fjallað um þessi mál í ræðu og riti á undanförnum dögum. Mér er bara algjörlega fyrirmunað að skilja það.

Menn segja: Það hefur ekkert efnislegt komið fram, engin efnisleg rök. Ég bendi þeim á að lesa þingsályktunartillöguna vegna þess að þar eru rakin þau atriði sem hafa breyst og gera það að verkum að efnislega eru mjög sterk rök fyrir því að ákæran verði dregin til baka.

Við höfum líka heyrt í dag mat sérfræðinganna. Það hefur verið vitnað í greinar forseta lagadeildar, Róberts Spanós. Það hefur verið vitnað í grein eftir Valtý Sigurðsson, fyrrverandi saksóknara. Ég tek undir með hv. þm. Atla Gíslasyni, mér finnst þessar greinar varpa skýru ljósi á hlutverk Alþingis í þessu máli. Þar held ég að grundvallarmisskilningurinn sé hjá þingmönnum eins og hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sem gat ekki skilið af hverju Alþingi ætti að blanda sér í þetta mál frekar en önnur dómsmál.

Svo það sé bara sagt skýrt: Þetta mál er í grundvallaratriðum ólíkt öllum öðrum dómsmálum sem hafa átt sér stað á Íslandi. Af hverju er það? Jú, vegna þess að Alþingi Íslendinga er ákæruvaldið í þessu máli. Alþingi Íslendinga hefur aldrei áður verið ákæruvald í neinu dómsmáli.

Þess vegna vil ég vísa í grein Valtýs Sigurðssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara, með leyfi virðulegs forseta, og ítreka það vegna þess að þetta virðist ekki ná í gegn. Valtýr segir í Morgunblaðinu 19. janúar sl.:

„Komi í ljós vankantar þar á ber ákæranda að afturkalla ákæruna og fella málið niður. Í landsdómsmálinu liggja þessar heimildir og skyldur eftir því sem næst verður komist hjá Alþingi sem ákæranda. Ríkissaksóknari, sem fer með málið í þessu tilfelli, getur lagt til við Alþingi að fella niður einstaka þætti eða málið í heild en hann hefur, ólíkt því sem er t.d. í almennum sakamálum, ekki heimild til að gera slíkt sjálfur. Þarna er reginmunur á og umræður einstakra þingmanna um að Alþingi eigi ekki að hafa afskipti af ákæruvaldinu í þessu máli eru því á misskilningi byggðar ólík því sem var í máli níumenninganna.“

Ég tek fram, af því að ég gerði það ekki áður, að þarna var hann að bera saman þessi tvö mál sem einnig hefur verið gert í þessari umræðu. Þarna sést sá grundvallarmunur sem er á þessum tveimur málum.

Ég vil líka, virðulegi forseti, rétt í lokin varpa fram spurningu: Í hvers konar samfélagi viljum við búa? Viljum við ekki búa í samfélagi þar sem við vitum að mannréttindi eru tryggð? Ég er sammála hv. þm. Árna Páli Árnasyni þegar hann sagði að það væri skylda okkar hér að meta málið út frá réttindum sakborningsins. Sakborningurinn í þessu máli á algjörlega sama rétt og sakborningar í öðrum málum, og aðrir sakborningar eftir atvikum. Það er það sem við verðum að hafa í huga og muna alltaf. Ég get ekki fellt mig við að búa í samfélagi þar sem menn eiga að þakka fyrir að fá að sanna sakleysi sitt fyrir dómi.

Ég veit að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir barði ekki manninn hér úti en það væri gott að ég legði fram kæru þannig að hv. þingmaður gæti hreinsað sig og enginn velktist í vafa um hvort hún væri sek um þennan glæp eða ekki. Þegar maður setur þetta svona fram sést hversu fjarstæðukennt þetta er.

Það er algjörlega fáránlegt að menn skuli ekki hafa réttlæti, virðingu fyrir mannréttindum og sanngirni að leiðarljósi þegar þetta mál er haft í huga. Veitum í það minnsta Alþingi tækifæri til að greiða um þetta atkvæði, taka efnislega umræðu í þingnefnd eins og alltaf hefur verið gert þegar um frávísunartillögur hefur verið að ræða. Þá er það að lokinni umfjöllun í nefnd og að lokinni 2. umr. (Forseti hringir.) Gerum ekki mistök aftur. Það er tækifæri til þess (Forseti hringir.) að breyta rétt.