140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég hef setið undir þessari umræðu hér í allan dag. Eins og við var að búast er tekist á um ýmis grundvallaratriði í löggjöf þessa lands. Þessum ágreiningi má í rauninni skipta í þrennt eftir áherslum ræðumanna, í fyrsta lagi hvort Alþingi hafi efnislegar forsendur eða heimildir til að grípa inn í mál sem komið er í þann farveg sem landsdómsmálið er. Í öðru lagi hafa menn rætt hér um sakargiftir og svo hefur verið rætt um hvort enn þá sé meiri hluti innan þess hóps ákærenda sem tók þá ákvörðun að vísa málinu til landsdóms.

Ég staldra fyrst við þetta atriði sem lýtur að spurningunni hvort Alþingi sé heimilt að grípa inn í málið.

Ég er þeirrar skoðunar að ákærandi hafi, eins og margir ræðumenn hafa sýnt fram á, á öllum stigum máls tækifæri til að breyta afstöðu sinni ef einhverjar nýjar upplýsingar koma fram. Þess vegna þótti mér einkennilegt að hlýða á hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra ræða hér eitt af þremur grundvallaratriðum í málinu, hvort Alþingi gæti gripið inn í málið sem hann sagði að miklar efasemdir væru um að sínu mati. Þá komst hann að þeirri niðurstöðu að Alþingi hefði engar heimildir til að gera það. Undir lok ræðu sinnar sagði hæstv. ráðherra að það hefði gegnt öðru máli ef þessi spurning hefði verið uppi nokkrum vikum eftir að ákvörðun Alþingis var tekin. Þessi afstaða hæstv. ráðherra þýðir með öðrum orðum að það sé í lagi að Alþingi grípi inn í málið á þessu stigi, bara ekki núna, heldur hefði átt að gera það einhvern tímann fyrr. Mér þykir mjög einkennileg afstaða hjá hæstv. ráðherra ef hann mælir gegn því og reynir að halda fram þeim rökum að Alþingi, ákæruvaldið í þessu máli, megi ekki á þessu stigi taka aðra ákvörðun en þá sem tekin var haustið 2010.

Heimildin er með öðrum orðum að hans mati, svo ég leggi ráðherra orð í munn, túlki það sem hann segir, fyrir hendi hjá ákæruvaldinu til að breyta um kúrs — bara ekki núna, hefði þurft að vera einhvern tímann fyrr. Það hefði verið ágætt að fá nánari upplýsingar frá hæstv. ráðherra um hversu langur tímafrestur það er sem Alþingi eða ákærandi ætti að hafa til að grípa til í þessum efnum við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Enn fremur ræddi hæstv. ráðherra að það væru engar efnislegar forsendur til að breyta þessari ákvörðun, allir þingmenn hefðu verið með meðvitund og opin augun eins og sagt er, það væri alltaf að gerast að mál væru afgreidd með sama hætti, þ.e. að endapunkturinn væri sá að tillagan væri borin upp svo breytt. Ég vek athygli manna á því að innanríkisráðherra, yfirmaður dómsmála, er á annarri skoðun en ráðherra í þessum efnum. Það er ekki rétt að halda því fram að tillagan hafi verið borin upp svo breytt. Tvær tillögur lágu fyrir og sú tillaga, eða endapunkturinn, sem fyrir lá var ekki breytingartillaga við þær tillögur sem bornar voru fram í þinginu heldur þvert á móti niðurstaða af mjög flókinni atkvæðagreiðslu. Sú tillaga sem á endanum var samþykkt og vissulega borin upp að lokum hafði einfaldlega aldrei komið til umræðu í þessum sal, þ.e. sá möguleiki að einn einstaklingur af þremur eða fjórum á þessum tveimur tillögum yrði ákærður. Hún var aldrei rædd í þingsölum. Það kom engin breytingartillaga fram í þá veru að málunum yrði skipað með þeim hætti sem hér um ræðir.

Hv. þm. Atli Gíslason sem að flestra mati hefur lagt mikla vinnu í og helgað sig þessum málum í verulegan tíma á þingi flutti hér ágæta ræðu. Hans mat á vinnu Atlanefndarinnar svokölluðu var að þar hefði verið á ferðinni ein heildstæð tillaga, ekki fjórar sjálfstæðar tillögur. Atkvæðagreiðsluna mat hann fullkomlega bjagaða, það hefðu verið gerð mistök sem menn ættu að læra af. Að hans mati væri full nauðsyn á fræðilegri og faglegri yfirferð um þetta mál í ljósi þeirrar stöðu sem það væri í um þessar mundir, hvort tveggja með tilliti til atkvæðagreiðslunnar og afgreiðslu þingsins á því, en enn fremur í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem fyrir lægju.

Það hefur verið kallað eftir því hverjar þær eru. Það er nokkuð fróðlegt að skoða það.

Menn tala um þetta mál á þeim nótum að hér hafi engar efnisbreytingar orðið. Er það svo? Liggja ekki fyrir ýmsar ákvarðanir í þeim málum sem lúta að ákæruatriðunum sem snerta það? Hefur ekki fallið dómur í dómsmáli sem höfðað var til ógildingar svokölluðum neyðarlögum? Liggur ekki fyrir að við erum komin í málarekstur við ESA út af Icesave-málinu? Í því sambandi vek ég sérstaklega athygli á því að einn af þeim fjórum kæruliðum sem út af standa hljóðar svo í ákæruskjalinu, með leyfi forseta, að fyrrverandi forsætisráðherra er borið það á brýn að „hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins“.

Á sama tíma heitir ríkisstjórn Íslands því að standa vörð um hagsmuni landsins í máli Eftirlitsstofnunar EFTA á hendur ríkinu vegna ábyrgðar á svokölluðum Icesave-reikningum Landsbankans. Einstaka ráðherrar hafa gengið mjög hart fram í því og viljað taka af allan vafa um að ýtrustu vörnum verði haldið uppi í þessu máli. Hvert er þá grundvallaratriðið í þeim efnum? Það að Icesave-reikningarnir hafi ekki verið á forræði eða ábyrgð íslenskra stjórnvalda og að íslenskir skattgreiðendur séu ekki ábyrgir fyrir þeim.

Þegar þetta liggur fyrir stöndum við í því að íslenska ríkisstjórnin stendur, í krafti þingmeirihluta hér á Alþingi, fyrir því að sækja sakamál á hendur fyrrverandi forsætisráðherra á þeim grunni sem ég las upp úr ákæruskjalinu.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þegar Alþingi staðhæfir að ábyrgðin á þessum reikningum hafi legið hjá íslenskum stjórnvöldum er verið að færa Eftirlitsstofnun EFTA, gagnaðila ríkisins í dómsmáli, mjög mikilvægt vopn í hendur. Hvernig ætlar íslenska ríkið að svara því máli ESA að Alþingi sjálft telji að ábyrgðin liggi hjá íslenskum stjórnvöldum?

Ég tel fyllilega ástæðu til þess, í ljósi þessa máls og þeirrar stöðu sem er uppi, að sá þáttur ákærunnar sem lýtur að þessu tiltekna atriði verði ræddur í framhaldi þess að þingið taki afstöðu til þeirrar þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Ég tel tvímælalaust að þessi tvö mál sem ég hef nefnt séu breyttar forsendur frá því sem var þegar ákæran var staðfest hér af meiri hluta Alþingis, vissulega, þó að sá meiri hluti liggi ekki fyrir í dag. Þvert á móti hafa þó nokkrir einstaklingar, hv. alþingismenn, opinberlega lýst því yfir að þeir hafi breytt um afstöðu í grundvallaratriðum í því máli sem hér um ræðir. Það er kannski ástæðan fyrir því að stór hluti hv. alþingismanna kærir sig ekki um að ræða þetta mál frekar eða rannsaka það.