140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:09]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það hefði verið hægt að snúa þessu andsvari hv. þingmanns upp í stutta setningu: Útlendingar eru með ósanngjarnar kröfur á forsætisráðherra og því dæmum við hann og vísum fyrir landsdóm.

Þetta er ekki málefnaleg umræða, en engu að síður í takt við þau andsvör sem hv. þingmaður hefur verið með hér uppi í dag og gert ríka kröfu um að málinu og umræðunni ljúki þegar í stað. Ég held að ég geti því sem næst fullyrt að hv. þingmaður byrjaði sinn dans í ræðustóli Alþingis í dag á þeim nótum að gera kröfu um að umræðunni lyki þegar í stað. Hann treysti sér með öðrum orðum ekki til þess að taka hana til enda þó að hann hafi átt hér góða viðdvöl í dag, verið drjúgur í því að koma hér upp í ræðustól og kalla eftir ákvörðun og úrskurði forseta í þeim efnum. Það bendir væntanlega til þess að hv. þingmaður hafi ekki liðsstyrk samherja sinna á þingi til að knýja fram sína afstöðu. Það þykir honum sjálfsagt miður, en það er óþarfi að láta það bitna á öðrum en sjálfum sér.