140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar til að koma inn á það sem hann sagði um þrískiptingu valdsins. Nú er það þannig að Alþingi er löggjafarhluti þess valds og landsdómur er skipaður átta mönnum sem Alþingi kýs af fimmtán, þ.e. Alþingi bæði ákærir og skipar landsdóm. Er það í samræmi við hugmyndir manna um þrískiptingu valdsins?

Hv. þingmaður talaði svo um trúverðugleika landsdóms — og ég vil benda á að hæstv. forsætisráðherra, formaður flokks hv. þingmanns, Jóhanna Sigurðardóttir, skrifaði á vefsíðu sína árið 2001, með leyfi frú forseta:

„Núverandi lög um landsdóm eru orðin úrelt og hafa ekki fylgt eftir þeirri framþróun sem hefur orðið í dóms- og réttarkerfinu.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra núverandi, ekki þáverandi. Hún telur sem sagt að þetta sé úrelt fyrirbæri, landsdómur. Hvaða áhrif hefur það á trúverðugleika landsdóms sem hv. þingmaður talaði um?

Svo sagði hann að menn gætu, ef þeir færu út í þennan praxís sem við erum að gera hérna, leyst flokksfélaga sína undan ábyrgð. Það er mjög athyglisvert í ljósi þess hvernig atkvæðagreiðslan fór um það hvort kæra ætti fjóra hæstv. ráðherra. Það var nefnilega bara einn kærður og það er mjög athyglisvert að fylgjast með því hvaða hrókeringar voru einmitt í atkvæðagreiðslu flokksfélaga hv. þingmanns.