140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnast það alvarlegar breytingar á forsendum þessarar ákæru þegar í ljós kemur að nokkrum þeirra sem stóðu að ákærunni, sem var samþykkt mjög naumt — og ég nefni hæstv. innanríkisráðherra Ögmund Jónasson, ég nefni hv. þm. Atla Gíslason og fleiri — hefur snúist hugur, þeir hefðu greitt atkvæði öðruvísi. Mér finnst það vera alvarlegur forsendubrestur þegar þeir sem ætluðu að ákæra og greiddu því atkvæði hvika svo frá því. Það þýðir að ekki hefði verið ákært. Að auki hefur komið í ljós að lönd sem féllust á að beygja sig fyrir auðvaldinu, fyrir fjármagninu — öndvert við Ísland — hafa farið mjög illa út úr þessari kreppu, eins og Írland, á meðan sá sem ákærður var stóð harður gegn því að íslenska ríkið mundi beygja sig fyrir þessum kröfum auk þess sem hann stóð að neyðarlögunum sem hafa sýnt sig að hafa verið kraftaverk.