140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þótt ég sé henni efnislega algjörlega ósammála. Það kemur mér á óvart að hv. þingmaður hafi ekki hlustað m.a. á ræðu hér fyrr í dag þar sem beinlínis er sagt að mistök hafi verið gerð við atkvæðagreiðsluna. Þetta er ekki bara eitthvert þingmál heldur er Alþingi ákærandinn. Málið snýst um réttindi einstaklings, það snýst um réttarstöðu sakbornings. Þeim þingmönnum sem vilja knýja landsdómsmálið í gegn er mjög tamt að vísa til Ólafs Jóhannessonar, Gunnars G. Schrams og fleiri látinna heiðursmanna og fræðimanna. En þeir benda einnig á Andra Árnason.

Þá spyr ég: Af hverju nýtum við ekki tækifærið til efnislegrar umfjöllunar og umræðu og spyrjum einfaldlega Andra Árnason að því hvort meiningin sé að Alþingi geti aldrei á neinu stigi afturkallað málið? Ég held nefnilega að svo sé ekki að hans mati eða Ólafs Jóhannessonar heitins varðandi þetta mál. Alþingi getur afturkallað ákæruna á hvaða stigi sem er, ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem átt hafa sér stað eftir kenningar áðurnefndra fræðimanna um réttarríkið, um sakamálareglu, þær hafa gjörbreyst í grundvallaratriðum.

Þess vegna hvet ég til efnislegrar umræðu um málið, að við fáum þessa fræðimenn, hvort sem það er Andri Árnason, Róbert Spanó eða aðrir til þess að ræða þann efnisþátt sem þeir þingmenn sem eru á móti því að að málið sé rætt efnislega hafa hangið mikið í.

Ákveðnir einstaklingar, og ekki bara einhverjir, heldur formaður þingmannanefndarinnar svokölluðu og einn nefndarmaður til viðbótar hafa sagt hér í dag: Það voru mistök að fara fram með málið með þessum hætti. Væri ekki réttast, þannig við lærum eitthvað af hruninu, (Forseti hringir.) að nota tækifærið til þess að leiðrétta mistök, því að málið fjallar um mannréttindi einstaklings? Fram hjá því verður ekki litið.