140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:31]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta það sem fram kom í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að inntakið í málflutningi mínum áðan hafi verið að Alþingi gæti aldrei undir neinum kringumstæðum afturkallað ákæru. Það var ekki það sem ég hélt fram. Um það eru deildar meiningar, en ég var að rökstyðja að það þyrftu að vera mjög ríkar ástæður til þess og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það hljóti að felast í nýjum upplýsingum sem kollvarpa þeim grundvelli sem lagður var með útgáfu upphaflegu ákærunnar. Það þurfa að vera slíkar ástæður sem réttlæta það að Alþingi stígi inn í málarekstur sem hafinn er fyrir landsdómi. Ég rökstuddi það síðan að það eru ekki þær forsendur sem lagðar eru með þeirri þingsályktunartillögu sem við fjöllum um nú.

Síðan geta menn haldið því fram að gerð hafi verið mistök við atkvæðagreiðsluna. Þar hafa menn mjög mismunandi sjónarhorn. Við fengum, eins og menn þekkja, út þá niðurstöðu að 33 þingmenn af 63 töldu meiri líkur en minni á að ákæra á hendur Geir H. Haarde mundi leiða til sakfellingar. Það var niðurstaða þingsins á þeim tíma. Það kann að hafa verið hald manna að heildarniðurstaða atkvæðagreiðslunnar mundi falla með einhverjum öðrum hætti en hún gerði, en það hefur ekkert að gera með þau ákæruatriði sem landsdómur tekur núna afstöðu til. Það er kjarni málsins að mínu mati.