140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það dylst ekki nokkrum manni að það mál sem hér er til umræðu snertir grundvöll samfélags okkar, sjálft réttarríkið og grundvöll þess. Það er því ætlast til þess að við bæði vöndum okkur við þessa umræðu og tökum hana mjög alvarlega. Hún hefur mikið fordæmisgildi og til hennar verður litið komi til þess að málatilbúnaður eins og sá sem við höfum verið að ræða hér undanfarið verði endurtekinn á Alþingi Íslendinga.

Ég vil því segja fyrst hvað varðar afstöðu mína til fyrirbærisins landsdóms að ég tel að það sé bæði úrelt og til óþurftar og get þar með tekið undir skoðanir hæstv. forsætisráðherra um þetta mál. Ég tel að í lýðræðisríki sem byggir á þingræðisreglunni séu til aðrar og eðlilegri leiðir til að fást við það ef ráðherrar í ríkisstjórn brjóta gegn starfsskyldum sínum en sú sem við erum að fara hér. Reyndar tel ég að þar sem um að ræða þingræði sé sá málatilbúnaður sem felst í landsdómi í raun og veru fullkomlega og algjörlega óþarfur.

Það er eiginlega alveg furðulegt að horfa til þeirrar atburðarásar sem varð á Íslandi sem leiddi síðan til þess að Alþingi ákvað að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þegar við setjum hana í samhengi við ýmsa aðra atburði sem orðið hafa í nágrannalöndum okkar í gegnum tíðina þar sem þingræðisreglan stendur föstum fótum. Það er sjálfsagt að hafa það í huga að til dæmis í Bretlandi kom það aldrei til greina og var aldrei rætt að fyrrverandi forsætisráðherra þeirrar þjóðar, Neville Chamberlain, yrði nokkurn tímann dreginn fyrir einhvers konar landsdóm fyrir stjórnmálastörf sín, stefnu og áherslur á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld. Má þó með rökum halda því fram að sú stefna sem Chamberlain stóð fyrir hafi verið röng, að afleiðingar hennar hafi verið skelfilegar og að betur hefði verið farin önnur leið og önnur sjónarmið og önnur stefna látin ráða.

Hið sama má segja með Frakkland á þeim tíma, þau réttarhöld sem þar urðu voru vegna landráða sem talið var og síðan staðfest að menn eins og Pétain og fleiri hefðu staðið fyrir og staðið að við stofnun Vichy-stjórnarinnar.

Þar sem þingræðisreglan gildir er ekki sú þörf að setja ráðherra af með landsdómi eins og landsdómslögin bjóða raunverulega upp á. Til þess eru dómstólar landsins ef ráðherrar brjóta af sér. Það tel ég hið eðlilega fyrirkomulag. En gott og vel, þetta er niðurstaðan og við þetta búum við. Þá er sú spurning sem hér hefur verið uppi hvort ástæða sé til að Alþingi endurskoði hug sinn hvað varðar þá ákvörðun sem tekin var hér fyrir nokkrum mánuðum og missirum um þessa málshöfðun. Á það hefur verið bent að það þurfi að koma fram einhver ný rök í málinu, einhverjar nýjar staðreyndir sem geri það að verkum að Alþingi geti breytt um skoðun.

Ég vil benda á, og hef ekki heyrt það hér í þessari umræðu fyrr, að það er líka rétt að líta til þess að ekki er nóg að ekki hafi komið fram nýjar staðreyndir, hvort sem það er rétt eða ekki. Menn geta skipt um skoðun, breytt afstöðu sinni til samhengis fyrirliggjandi staðreynda. Það er vel hægt að benda á það, frú forseti, að núna er ríkari skilningur á því að til dæmis möguleikar ríkisstjórna Vesturlanda til að hemja bankakerfi sín voru mjög takmarkaðir þrátt fyrir að mönnum hafi mátt vera ljóst að í óefni var komið. Eða hafa hv. þingmenn ekki fylgst með umræðum um stöðu bankamála á Írlandi, um stöðu bankamála í Evrópu almennt, um stöðu bankamála í Bandaríkjum Norður-Ameríku? Sú umræða er mun þroskaðri og margt hefur komið í ljós frá þeim tíma þegar Alþingi tók ákvörðun um að lögsækja Geir H. Haarde. Það er dæmi um dýpri og breyttan skilning á atburðarás.

Það má vel færa fyrir því rök, í það minnsta er það umræðunnar hér virði, að þingmenn fái tækifæri til að tjá sig um þessa hluti, til að meta það og vega hvort skilningur þeirra á þessum atburðum geri það að verkum að þeir vilji breyta þeirri afstöðu sinni að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Ég er þeirrar skoðunar þegar horft er til þess hver afstaða Alþingis hefur verið í Icesave-málinu. Eðli málsins samkvæmt skýtur það skökku við að ætla sér nú að ákæra Geir H. Haarde vegna Icesave-málsins þegar fyrir liggur og hefur komið fram í lagafrumvörpum samþykktum á Alþingi, en reyndar hafnað síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu, að það sé skýrt tekið fram af hálfu Alþingis að engin lagaleg ábyrgð hvíli á íslensku þjóðinni vegna þeirra reikninga.

Allur þessi málflutningur og allar þessar staðreyndar hafa þroskast mjög frá þeim tíma þegar Alþingi tók ákvörðun sína. Skilningur almennings og skilningur alþjóðasamfélagsins á þessari stöðu er meiri en áður. Þess vegna er eðlilegt að Alþingi ræði nú þessi mál, vegi þau og meti. Hvernig í ósköpunum má það reyndar vera, frú forseti, að mönnum detti í hug að lögsækja Geir H. Haarde fyrir Icesave-málið? Sú skoðun gengur einfaldlega ekki upp. Hvernig má það vera ef önnur ríki sækja að íslenskum hagsmunum af miklum yfirgangi, hörku og óbilgirni að því sé haldið fram, eins og gert hefur verið í þingsalnum, að þar með hafi Íslendingar lent í þvílíkum vanda að einhver verði að bera ábyrgð? Ég bið hæstvirta ráðherra að íhuga þetta fyrirkomulag ef svona á að halda á málum og þetta verður matið.

Frú forseti. Ég tel mikið liggja við að við förum í gegnum þá umræðu sem við höfum gert hér í dag og náum málefnalegri niðurstöðu. Enn og aftur, það skiptir svo miklu máli hvernig við tökum á þessu máli núna upp á framtíð stjórnmálalífs á Íslandi. Þar liggur ansi mikið undir. Stöðugleiki í stjórnmálum, stöðugleiki í stjórnarfari, sanngirni og réttlæti skipta alveg gríðarlega miklu máli.

Ég verð að segja að mér finnst fremur dapurlegt, svo ekki sé meira sagt, að heyra bæði úti í þjóðfélaginu og líka í þessum virðulega ræðustól þau sjónarmið að það sé einkar heppilegt fyrir Geir H. Haarde að fá tækifæri til þess að hreinsa mannorð sitt, eins og það er orðað, fyrir réttinum. Þetta er eins dapurlegt sjónarmið og mögulegt er að setja fram. Fullkomlega hörmulegt. Grundvallarreglur réttarríkisins skipta gríðarlega miklu máli og þarf ekkert að fara í langa umræðu um það. Það reynir mest á þær þegar við lendum í áföllum, rétt eins og það reyndi mjög á slíkar reglur á árunum eftir stríð í löndum eins og Bretlandi og Frakklandi og rétt eins og reynir mjög á núna við þessar aðstæður, þó að áföllin hafi ekki verið á neinum skala nálægt því sem þar gerðist. Það er þetta próf sem við stöndum frammi fyrir.

Því fullyrði ég að það er full ástæða fyrir okkur þingmenn til að ræða þetta mál, bæði vegna þess að við getum svo auðveldlega hafa breytt um skoðun hvað varðar þær staðreyndir sem liggja fyrir og eins hafa nýjar staðreyndir komið fram í málinu.

Þannig legg ég eindregið til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til nefndar, það fái þinglega meðferð (MÁ: Hvaða nefndar?) og það náist síðan — saksóknarnefndar, hv. þingmaður — niðurstaða í þinginu með atkvæðagreiðslu þannig að við fáum möguleika til að kalla fram raunverulegan þingvilja í málinu. Það hefur líka margoft komið í fram í umræðunni að margir þeirra þingmanna (Forseti hringir.) sem tóku afstöðu með því að ákæra Geir H. Haarde hafa sagt: Ég vildi að ég hefði gert öðruvísi. Það er ástæða til að hlusta eftir því.