140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það lýsir svolítið sérkennilegum skilningi á bæði gangi mála í þinginu og réttarfarinu í landinu að ein helstu rökin í þessari umræðu séu þau að Atli Gíslason og Sigurður Ingi Jóhannsson segist hafa skipt um skoðun í málinu og kannski einn þingmaður til viðbótar. Alþingi talar ekki með skoðunum einstakra manna. Alþingi talar einni röddu með atkvæðagreiðslu og hún fram fór í þessu máli með dramatískum hætti eins og menn muna. Hv. þingmaður var að vísu ekki staddur í salnum þegar það var en ég var hér af tilviljun, fyrsta raunverulega verkefni mitt á þinginu eftir að ég kom hingað aftur var að taka þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Málið er þannig vaxið úr því að við ræðum þetta innan þess ramma að Alþingi geti gert það. Ég nenni ekki satt að segja að verja tíma til að ræða það mál þótt ég efist um það, en ef Alþingi eða einhver á að afturkalla ákæru verður hann að gera það annaðhvort vegna þess að nýjar upplýsingar hafa komið fram sem breyta eðli málsins eða vegna þess að tilteknar grundvallarforsendur sem lágu fyrir ímálinu eru orðnar öðruvísi, hafa brugðist eða nýjar komnar í staðinn. Það eru ekki grundvallarforsendur að hv. þingmenn Atli Gíslason og Ögmundur Jónasson finni núna öðruvísi til en þeir gerðu í september 2010.