140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:05]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um afturköllun á ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Menn hafa rætt í dag af hverju þessi afturköllun er lögð til. Ég vil í ræðu minni gera grein fyrir af hverju ég styð þá þingsályktunartillögu sem hér er rædd og af hverju ég mun greiða atkvæði gegn tillögu til rökstuddrar dagskrár um að þetta mál verði tekið af dagskrá í lok umræðunnar.

Á haustdögum 2010 voru bornar upp í þinginu og ræddar ákærur á hendur fjórum ráðherrum annars vegar og hins vegar þremur, og fór fram atkvæðagreiðsla í þinginu 28. september 2010 sem leiddi til þess að einn af þeim fjórum sem ákæra átti var ákærður. Ég tel að þegar málinu var vísað til landsdóms og frávísunartillaga frá verjanda sakbornings fór fyrir landsdóm og dómurinn ákvað að víkja burt liðum sem nefndir eru liður 1.1 og liður 1.2, hafi forsendur brostið. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa:

„… að landsdómur víkur burt því ákæruatriði á hendur forsætisráðherra að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins. Þessu vísar landsdómur á bug.

Í öðru lagi að hæstv. ráðherra hafi látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.“

Ég upplýsi hér og nú að ég sat í þeirri þingmannanefnd sem vann að skýrslu til Alþingis þó ég hafi ekki átt aðild að þingsályktunartillögum um ákæru á hendur fjórum ráðherrum og var þeim andsnúin. Ég taldi ekkert benda til þess að um saknæmt athæfi hafi verið að ræða, þó að ég hafi talið þá og telji enn að stjórnvöld á árunum 2005, 2006 og í raun fram til ársins 2012 hefðu getað gert ýmislegt betur í aðdraganda hruns og eftir hrun.

Frú forseti. Innan þingmannanefndarinnar var alveg ljóst að þetta voru þau atriði sem mestu máli skiptu. Þau atriði sem eftir standa varða afmarkaðri aðgerðir; eftirlit með tilteknum samráðshópi stjórnvalda, aðgerðum sem áttu að stuðla að minnkun bankakerfisins og flutningi Icesave-reikninga í dótturfélag í Bretlandi, auk þess að hafa ekki haldið ríkisstjórnarfundi. Mér er til efs að ef þessir ákæruliðir hefðu staðið einir og sér í þeim ákærum sem hér lágu fyrir, hefði niðurstaðan orðið sú sem raun varð á 28. desember. Þess vegna er í mínum huga brostnar forsendur fyrir ákæru á hendur Geir H. Haarde vegna þess að landsdómur vísaði þeim þáttum frá sem ég tel að hafi verið tveir mikilvægustu þættirnir í ákæruliðum tillögu fimmmenninganna svokölluðu.

Þess vegna, frú forseti, segi ég: Það eru brostnar forsendur fyrir ákærunni. Og þar sem Alþingi Íslendinga er ákæruvaldið ber Alþingi Íslendinga, sjái það og telji að ný atriði komi fram sem varpi öðru ljósi á málið, að taka málið upp að nýju með einum eða öðrum hætti. Ég tel að forsendur séu brostnar fyrir þeirri ákæru sem lögð fram var og því eigi að ræða hvort fella eigi ákæruna niður.

Þetta er ágreiningur um þetta í þinginu, hvort forsendur hafi breyst. Ég tel svo vera og segi við þá flutningsmenn tillögu til rökstuddrar dagskrár um að taka málið af dagskrá, að að þessu gefnu, að þessu förnu, séu í grundvallaratriðum komin fram ný atriði til skoðunar sem við þurfum að velta fyrir okkur. Ég segi fullum fetum, hafandi setið í þessari nefnd, að þetta voru þau atriði sem nefndin var sammála um og þeir fimmmenningar sem lögðu fram tillöguna að væru veigamestir. Þess vegna er forsendubrestur klár í þessari ákæru.

Virðulegur forseti. Í umræðu í þingmannanefndinni svokölluðu hlustaði maður á marga löglærða menn og skildi þá á þann veg að grundvallaratriði í sakamálarétti sé að ekki skuli gefin út ákæra nema gögn málsins séu nægjanleg eða líkleg til sakfellis.

Ég vil leyfa mér, frú forseti, að vitna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, þar sem segir á bls. 288, með leyfi forseta:

„… telur nefndin ástæðu til að undirstrika að það getur að hennar mati ekki verið skilyrði fyrir ályktun um að maður hafi sýnt af sér vanrækslu, t.d. við opinbert eftirlit með fjármálastarfseminni eða við stefnumörkun á því sviði, að sýnt þyki að aðgerðir þær eða ráðstafanir sem nefndin telur að honum hafi borið að hafa frumkvæði að hefðu einar og sér getað stuðlað að því að koma að öllu leyti í veg fyrir fall bankanna og tjón sem af því leiddi fyrir íslensku þjóðina.“

Fram til þessa, virðulegur forseti, hefur enginn aðili getað fullyrt að beint orsakasamhengi sé á milli vanrækslu ráðherra og þess fjármálaáfalls sem hér varð haustið 2008 né slegið því föstu hver innbyrðis þýðing hinna samverkandi þátta sem leiddu til þess hafi verið.

Í þeim ákæruliðum, virðulegur forseti, sem eftir liggja eru formsatriði eins og ófullkomin miðlun upplýsinga og skortur á umræðu á formi og ríkisstjórnarfundum árið 2008 talin refsiverð. Ég er þeirrar skoðunar nú eins og ég var þá að hvergi í ákærutillögunum séu leidd fullnægjandi rök að því að beint orsakasamband sé á milli þessara formgalla í stjórnsýslu og hruni bankanna og því tjóni sem íslensk þjóð varð fyrir.

Það er þess vegna mín skoðun að allar forsendur séu til þess að Alþingi Íslendinga ræði þetta mál að nýju, það fái þinglega meðferð og að ekki verði ótti innan þingliðs, sama hvar í flokki menn standa, til að veita þessu málefni það brautargengi sem það ætti að fá með þinglegri meðferð á Alþingi. Það væri sögulegt fyrir Alþingi Íslendinga að hafa ekki kjark til að ræða frekar jafnviðamikið og jafnafdrifaríkt mál og þetta.

Ég leyfi mér í lokin, frú forseti, að vitna í orð Stefáns Más Stefánssonar þegar hann ræddi um málsmeðferð Alþingis. Hann segir, með leyfi forseta:

„… að umrædd málsmeðferð Alþingis hafi í þýðingarmiklum atriðum vikið frá almennum og viðurkenndum reglum um höfðun sakamála. Sé það rétt dregur það mjög úr trúverðugleika ákærunnar.“

Hér eru uppi, virðulegur forseti, ólík sjónarmið um hvort Alþingi hafi enn ákæruvaldið, hvort efnislegar forsendur hafi brostið. Ég er á þeirri skoðun að Alþingi hafi ákæruvaldið og forsendur séu brotnar. Ég skora á Alþingi Íslendinga að veita þessu máli brautargengi með þinglegri meðferð.