140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:26]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Nú er orðið nokkuð liðið á kvöld og mynd er komin á þau rök sem menn bera fram með og á móti þessari tillögu.

Í meginatriðum virðast rökin á móti skiptast í þrennt: Í fyrsta lagi að málið sé ekki þingtækt, í öðru lagi að Alþingi grípi inn í þrískiptingu valdsins ef tillagan verður samþykkt, þ.e. að málið sé úr höndum Alþingis, og í þriðja lagi að ekki hafi komið fram nægjanlegar efnislegar ástæður fyrir því að vísa málinu frá.

Hvað varðar að málið sé ekki þingtækt er varla um það deilt að hæstv. forseti setti málið á dagskrá og hefur það verið til umræðu í allan dag. Það bendir ótvírætt til þess að málið sé í þinglegri meðferð. Þessi rök virðast því vera haldlítil og ekki þarf að eyða mörgum orðum í þau.

Hvað varðar þá röksemd að málið sé úr höndum Alþingis virðast helstu lögspekingar vera sammála um að það sé ekki rétt túlkun. Undanfarna daga hafa Valtýr Sigurðsson, Stefán Már Stefánsson, Róbert Spanó og Ragnar Hall bent á að þegar lögum um landsdóm sleppir beri að styðjast við ríkjandi sakamálarétt, en í honum segir skýrt að ákærandi geti á öllum tímum breytt ákærum allt þar til dómur er genginn. Eins og allir vita orðið liggur ákæruvaldið hjá Alþingi.

Þennan skilning má einnig finna hjá saksóknara í málinu gegn fyrrverandi forsætisráðherra. Það sem skiptir ef til vill mestu máli nú er að landsdómur er sjálfur sammála þessari túlkun, enda segir í úrskurði hans frá því í október, með leyfi forseta:

„Sá sem Alþingi kýs til að sækja málið af sinni hálfu, eftir að það hefur tekið ákvörðun um að ákæra, hefur ekki forræði á því hvers efnis ákæran er, sem hann gefur út í málinu. Telji hann rétt að takmarka eða auka við ákæruatriðin, sem fram koma í þingsályktuninni, verður hann að beina því til Alþingis að samþykkja nýja þingsályktun með þeim breytingum, sem hann telur rétt að gera. Saksóknari Alþingis hefur því hvorki ákæruvald í málinu né hefur hann forræði á því hvers efnis ákæran er.“

Svo mörg voru þau orð.

Andstæðingar tillögunnar hafa fært fram þau rök að þetta stangist á við veigamikil rök sem prófessorarnir Ólafur Jóhannesson, Gunnar G. Schram og Bjarni Benediktsson hafa sett fram um málið. Í álitum þeirra er sagt frá því að eftir að málið er sent frá Alþingi í landsdóm, eða til saksóknara, hafi það ekki lengur forræði yfir því. Mismunandi skilning virðist mega skýra með þeirri þróun sem orðið hefur á sakamálarétti og breytingum á lögum sem hafa orðið síðan prófessorarnir settu þessa túlkun fram á sínum tíma. Ég hafna því algjörlega þeim skilningi að málið sé úr höndum Alþingis og að þetta sé inngrip í dómsmál sem raski þrískiptingu valdsins.

Þriðja röksemdin er sú að ekki hafi komið fram nægar málefnalegar ástæður til þess að Alþingi geti breytt ákæru sinni og því sé ekki tilefni til að samþykkja tillöguna. Burt séð frá öllum þeim rökum sem tínd eru til í greinargerð með þingsályktunartillögunni eru sterkustu rökin fyrir frávísun, að mínu viti, þau að hafi sá sem hefur ákæruvaldið, þ.e. Alþingi, efasemdir um að nægilega sterkar líkur séu á sakfellingu fyrrverandi forsætisráðherra sé rétt að vísa ákærunni frá. Þetta eitt og sér telst nægjanlega sterk rök fyrir því að sú meginregla sem gildir í íslenskum sakamálarétti, að ekki eigi að ákæra mann nema meiri líkur en minni séu á sakfellingu, leiði til þessarar niðurstöðu.

Nokkrir þingmenn hafa komið fram með aðrar röksemdir gegn frávísun sem tæpast er þó hægt að taka alvarlega og geta varla talist þess virði að mikið sé fjallað um þær. Þannig tíndi hæstv. sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags-, viðskipta- og verðandi iðnaðarráðherra til þau rök að menn hefðu átt að gera sér grein fyrir afleiðingum laganna um rannsóknarnefnd Alþingis haustið 2008, ekki þýði að gráta Björn bónda nú. Þetta finnst mér ekki vera rök í málinu.

Þá virðast þingmenn Hreyfingarinnar færa fram þau rök að það sé nokkurs konar vilji fólksins að málið verði leitt til lykta, þ.e. „Menschen wollen“ sem var oft notað í röksemdum á millistríðsárum í Þýskalandi, og talað um að þetta séu réttarhöld yfir frjálshyggjunni, jafnvel Sjálfstæðisflokknum og græðgisstefnunni og öðru slíku. Það er ekki hægt að taka alvarlega.

Þá hafa komið fram rök frá einhverjum þingmönnum, til að mynda frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram, að Geir H. Haarde eigi að þakka fyrir að fá að hreinsa sig af áburði varðandi sakarefni og því eigi hann einfaldlega að vera þakklátur fyrir tækifærið. Það eru náttúrlega rök sem ekki standast að það sé sérstakt happ að vera ákærður í máli og færður fyrir dómara.

Þessi viðbótarrök dæma sig sjálf. Þau eru á engan hátt hægt að taka alvarlega.

Ég vil ljúka þessari ræðu minni á því að segja að þessi tillaga snýst fyrst og fremst um mannréttindi, þ.e. að bæta fyrir þá misgjörð sem gerð var hér þegar efnt var á pólitískan hátt til réttarhalda yfir manni sem vissulega gegndi æðsta stjórnmálaembætti þjóðarinnar til nokkurra ára í aðdraganda hrunsins og í hruninu sjálfu. Það þýðir ekki að sjálfkrafa sé hægt að troða á mannréttindum einstaklinga sem gegna slíkum embættum. Þetta snýst því um að stöðva þau pólitísku réttarhöld sem þingmenn sem greiddu þessu atkvæði á sínum tíma blésu til.