140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek til máls í annað skipti í þessari umræðu og hef til þess stuttan tíma þannig að ég mun takmarka mig við tiltölulega fáa þætti þó að margt í umræðunni hér í dag hafi gefið tilefni til svara. Ég ætlaði að árétta nokkra þætti sem varða það sem mér finnst að við eigum fyrst og fremst að takast á við hér í kvöld, það er einfaldlega það hvort eðlileg og venjubundin þingleg meðferð þessa máls eigi að halda áfram, eða hvort henni eigi að ljúka að lokinni þessari umræðu.

Hv. þingmenn þekkja mætavel hvernig hlutir ganga að jafnaði fyrir sig hér á Alþingi. Að jafnaði er það svo að þau mál sem tekin eru á dagskrá þingsins eru rædd við 1. umr. og ganga síðan, venjulega athugasemdalaust, til nefndar og 2. umr. að því búnu, það er hin venjubundna leið. Undanfarin ár, undanfarin fjögur ár, hefur það fyrirkomulag verið fyrir hendi að ekki er að jafnaði þörf á atkvæðagreiðslu um það hvort mál skuli ganga áfram. Það gerist sjálfkrafa samkvæmt tillögu forseta nema óskað sé eftir atkvæðagreiðslu um annað. Almennt er sem sagt gert ráð fyrir því að þegar mál eru tekin á dagskrá þingsins og rædd við 1. umr. eigi þau áframhaldandi framgang og framhaldslíf hér á þingi og fái umfjöllun í nefnd eftir mati þeirrar nefndar sem um málið á að fjalla.

Á þessari stundu, hæstv. forseti, er það kannski ekki meira sem ég sem stuðningsmaður þessarar tillögur er að biðja um en að málið fái að halda áfram, þ.e. að sú frávísunartillaga sem hér liggur fyrir frá fjórum hv. þingmönnum verði ekki samþykkt, vegna þess að með því móti væri klippt á hina venjubundnu meðferð og þau álitaefni sem að sönnu hafa komið upp í þessari umræðu, til dæmis um möguleika þingsins á að hafa afskipti af málinu á þessu stigi, sem hefur verið töluvert til umræðu hér í dag, og síðan hvort forsendur eru fyrir því að framfylgja tillögunni samkvæmt efni hennar, þ.e. að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde, hvort þær eru fyrir hendi.

Ég er í raun og veru, hæstv. forseti, ekki að biðja um annað sem stuðningsmaður þessarar tillögu en að þingið meðhöndli hana eins og langflest mál, nánast öll sem tekin eru hér til fyrri umr., til þess að það fái þá efnislegu umfjöllun sem það á skilið.

Þeir sem komið hafa hingað í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi við frávísunartillöguna, tillögu hv. þingmanna Magnúsar Orra Schrams, Eyglóar Harðardóttur, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Birgittu Jónsdóttur, hafa lýst yfir stuðningi við hana á ýmsum forsendum. Sumir eru þeirrar skoðunar, að því er virðist, að þingið sé að fara út fyrir valdheimildir sínar með því að taka þetta mál til afgreiðslu. Aðrir eru þeirrar skoðunar að það sé Alþingi svo sem mögulegt, en þeir styðji hins vegar ekki efni tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar og telji þess vegna að henda eigi málinu út.

Ég vildi nota þetta tækifæri, þegar farið er að halla undir lok þessarar umræðu, og árétta þá skoðun mína að hér eru álitaefni uppi. Í þessari umræðu hafa verið færð rök fyrir tillögunni og gegn henni. Færð hafa verið rök fyrir því að Alþingi geti afturkallað ákæruna og færð hafa verið rök gegn því. Skoðum málið. Hendum tillögunni ekki út á þessari stundu. Samþykkjum ekki frávísunartillöguna heldur gefum okkur sjálfum, og þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar, tækifæri til að fjalla um það með vandaðri hætti en hægt er í umræðum hér í þingsal.