140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:11]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það líður að lokum umræðunnar. Það eru tvö atriði sem ég vildi einkum koma að í þessari annarri ræðu minni. Fyrra atriðið snýr að því hvert málið ratar eftir að umræðu lýkur.

Nokkuð var tekist á um það í upphafi umræðunnar, eftir að ég hafði lagt til að saksóknarnefndin fengi tækifæri til að funda um málið milli umræðna, hvort það væri í samræmi við þingskapalög að vísa málinu þangað. Hugmynd mín, eins og ég kynnti hana, byggðist á því að saksóknarnefndin fengi tækifæri milli umræðna til að koma saman og ræða þingmálið. Ég lét þess getið í máli mínu að ekki væri um hefðbundna fastanefnd að ræða og þar af leiðandi væri ekki ástæða til að gera ráð fyrir því að fram yrði lagt nefndarálit af hennar hálfu. Það kann að vera að einhver líti svo á að ekki sé gert ráð fyrir þessu samkvæmt þingsköpum. Þeir kunna að hafa rétt fyrir sér, en það skiptir í sjálfu sér ekki máli vegna þess að hugmynd mín var í eðli sínu sú að við sammæltumst um að síðari umræðan færi ekki fram fyrr en saksóknarnefndin hefði að minnsta kosti fengið tíma til að koma saman.

Í skilningi þingskapalaganna mætti þannig líta á þessa tillögu mína sem tillögu um að málið gengi ekki til nefndar, ef svo má að orði komast, þar sem við værum þá í þeim skilningi alltaf að vísa til einhverra af fastanefndum þingsins. Aðalatriðið er að saksóknarnefndin fengi tækifæri í tíma og það væri tekið þar fyrir á dagskrá.

Að öðru leyti vænti ég þess, verði málinu á annað borð ekki vísað frá með því að hér verði samþykkt tillaga til rökstuddrar dagskrár, að það kunni að koma fram tillögur um það hér á eftir að málið fari í einhverja tiltekna fastanefnd, það kemur þá bara í ljós.

Ég vil hins vegar fjalla um annað atriði sem varðar hina títtnefndu tillögu til rökstuddrar dagskrár og þá röksemdafærslu sem henni fylgir, nefnilega það að ekki sé hægt að taka hér til meðferðar þá þingsályktunartillögu sem við erum að ræða nema henni fylgi það sem segir í skjalinu málefnaleg rök og að þetta leiði af grunnreglum stjórnsýslunnar að Alþingi sé á sama hátt bundið af sjónarmiðum um málefnalegar forsendur eins og á við í stjórnsýslunni. Staðreynd málsins er sú að við erum ekki að taka stjórnsýsluákvörðun hér. Það gilda allt aðrar reglur í stjórnsýslunni en um þá ákvörðun sem við erum hér að ræða. Það er grundvallarmunur á grunnreglum stjórnsýslunnar um þetta atriði og rekstri sakamáls. Þannig hafna ég því með öllu að þær reglur stjórnsýslunnar sem hér er vísað til eigi nokkurt erindi inn í umræðuna um það hvort þingið geti tekið ákvörðun um afturköllun ákærunnar.

Eftir að hafa hlýtt á fjölmargar ræður hér í dag vek ég athygli á því meginatriði að Alþingi fer með ákæruvaldið. Hvergi er kveðið á um það í lögum að Alþingi geti ekki afturkallað ákæru. Einungis hefur verið vísað til skrifa fræðimanna sem í flestum tilvikum eru orðin býsna gömul, miklu eldri en nýjustu breytingar á sakamálalögunum, sem menn eru þó sammála um að séu landsdómslögunum til fyllingar.

Þegar við lesum landsdómslögin og lög um meðferð sakamála, sem eru þeim til fyllingar, sjáum við ákvæði sem heimila einmitt að ákæruvaldið dragi málsókn til baka. Það er því ekki nóg með að ekki sé jákvætt ákvæði, eða við gætum sagt neikvætt ákvæði, í lögunum sem komi í veg fyrir að þingið geri þetta, heldur er beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum sem eru landsdómslögunum til fyllingar, beinlínis gert ráð fyrir því. Það er enginn vafi, þegar lög eru túlkuð, að skýr lagatexti gengur framar fræðiritum. Það er enginn vafi í því efni.

Allt þetta leiðir til þess að það er alveg ótvírætt að þingið hefur enn fullt forræði yfir málinu. Ég vísa í því samhengi líka til þess sem landsdómur hefur nú þegar sagt. Landsdómur sagði í úrskurði sínum frá því í haust að málsforræðið væri ekki hjá saksóknara, hann gæti ekki breytt ákæruliðunum, hvorki bætt við þá né dregið úr, án þess að bera það undir þingið. Í því felst meðal annars að komi saksóknari inn til þingsins með hugmyndir um slíkt er það á valdi þingsins að taka afstöðu til þess af eða á, meðal annars gæti þingið neitað hugmyndum saksóknara um breytingar á ákæruliðum og falið honum að halda áfram með málið á þeim forsendum sem upphaflega var lagt af stað með.

Þetta sýnir að valdið er ótvírætt hér hjá þinginu til þess að taka ákvörðun eins og í öllum öðrum sakamálum, allt fram til þess að dómur er kveðinn upp, um hvað skuli gera með ákæruatriðin.

Ég tel því að það hafi komið ótvírætt fram í umræðunni í dag að þingið er til þess bært, með vísan til alls þess sem ég hef hér rakið, að taka þessa ákvörðun. Hafi menn verið í einhverjum vafa um að tilefni væri til að taka þessa umræðu hér í þingsal hljóta þeir að hafa sannfærst eftir að hafa hlustað á hverja ræðuna á fætur annarri hér í dag, meðal annars frá þingmönnum sem áttu sæti í þingmannanefndinni sem lagði til ákærurnar á sínum tíma. Ég vísa til dæmis til hv. þm. Atla Gíslasonar í því sambandi. Þegar hv. þm. Atli Gíslason hefur komið hingað og fært fram þau rök sem hann gerði, er í raun og veru búið að slá út af borðinu allar efasemdarraddir um að tilefni hafi verið til að koma fram með málið. Ekki er nóg með að Atli hafi leitt starfið sem fór fram í þingmannanefndinni, heldur var Atli þeirrar skoðunar á sínum tíma að ástæða væri til að ákæra fjóra ráðherra. Í hans máli komu fram nægjanleg rök sem ein og sér hefðu dugað til að leggja fram mál af þeim toga sem ég hef mælt fyrir hér í dag.

Það eru fleiri rök í málinu. Yfir þau þarf að fara. Það er langheppilegast að það verði gert í þingnefnd. Ég hef lagt til saksóknarnefndina. Við sjáum til hvernig meiri hluti þingsins vill að því verði fyrir komið milli umræðna. Ég vil nota lok ræðutímans til að vekja athygli á því að þetta þarf ekki að taka langan tíma. Ef ég man rétt tók það Alþingi einungis 17 almanaksdaga að taka tillögu um ákæru gegn fjórum ráðherrum á dagskrá til fyrri umr., til meðferðar í nefnd, til síðari umr. og til endanlegrar afgreiðslu hér í þinginu — 17 daga og fjórar ákærur voru undir í því máli, það var mun umfangsmeira verkefni en það sem við mundum fást við í nefnd og við síðari umræðu í þessu máli. Ég tel því eðlilegt að gera ráð fyrir því að síðari umræða í þessu máli gæti farið fram innan viku, kannski í síðasta lagi eftir 10 daga. Það eru engin rök til þess að meðferð málsins ætti að taka lengri tíma hér í þinginu ef sú nefnd sem fjallar um málið telur ástæðu til að koma aftur með það hér í þingið í byrjun næstu viku. Þá er ekkert því til fyrirstöðu af minni hálfu að halda síðari umræðu málsins þá (Forseti hringir.) og taka málið í kjölfarið til endanlegrar afgreiðslu.