140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:32]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf):

Herra forseti. Eins og sumir aðrir þingmenn kem ég nú í fyrsta sinn að þessari umræðu um þetta mjög svo erfiða og flókna mál. Ég vil taka það fram í upphafi að ég taldi og tel enn að þrír fyrrverandi ráðherrar ættu að standa skil athafna sinna og athafnaleysis fyrir landsdómi. Ég tel að sú ákvörðun Alþingis að gera það ekki hafi verið röng. Ég tel hins vegar þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu ekki þingtæka.

Hv. þm. Birgir Ármannsson kallaði eftir því fyrr í dag að þeir þingmenn sem væru þeirrar skoðunar gerðu grein fyrir þeim rökum sem þeir telja styðja þá afstöðu. Og það ætla ég að gera.

Ég vil byrja á því að vitna í 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Samkvæmt þessu ákvæði gildir sú almenna regla, og hefur gert lengi, að það eru stjórnvöld sem fara með ákæruvaldið í þessu landi. Frá þessari almennu reglu er undantekning í 14. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum.“

Síðan segir:

„Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“

Stjórnarskráin sjálf geymir þannig sérstaka undantekningu frá áður tilvitnaðri 2. gr., um að ákæruvaldið sé almennt í höndum framkvæmdarvaldsins. Samkvæmt öllum venjulegum og almennum lögskýringarreglum ber að túlka slíkar undanþágur mjög þröngt.

Ég tel að ekki sé hægt að túlka þetta ákvæði 14. gr. svo rúmt að í því felist sjálfstætt ákæruvald sem með skuli fara með sama hætti og ákæruvaldið almennt í landinu, og þá meðal annars að í því geti falist heimild til handa Alþingi til að falla frá ákæru á hendur ráðherra.

Til þeirrar niðurstöðu hníga einnig fleiri rök, sérstaklega þau að stjórnarskráin sjálf geymir sérákvæði um það með hvaða hætti ákæra á hendur ráðherra skuli felld niður, en það er 29. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.“

Herra forseti. Þetta tilvitnaða ákvæði stjórnarskrár er sérákvæði um að framkvæmdarvaldið, með atbeina forseta, og að fengnu samþykki Alþingis, fari með vald til þess að fella niður ákæru á hendur ráðherra. Ég tel að þessu sérákvæði stjórnarskrár verði ekki rutt til hliðar með breytingum á almennri réttarfarslöggjöf eins og haldið er fram í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu. Það er því skoðun mín að Alþingi hafi ekki heimild til að eiga sjálfstætt frumkvæði að því að fella niður saksókn á hendur ráðherra eða heimild til að fela saksóknara Alþingis að gera það. Það vald hvílir hjá framkvæmdarvaldinu og framkvæmdarvaldinu einu.

Hv. þm. Birgir Ármannsson óskaði efti því fyrr í umræðunni, eins og áður segir, að þeir sem væru þeirrar skoðunar að Alþingi væri að gera eitthvað sem það hefði ekki vald til að gera létu afstöðu sína uppi og rökstyddu. Það hef ég gert. Ég tel þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu ekki þingtæka. Þess vegna styð ég þá dagskrártillögu sem hv. þm. Magnús Orri Schram og fleiri hafa lagt fram.