140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:40]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eflaust má lengi takast á um það hvort heimilt er að draga til baka níu ákæruatriði af tíu, tvö af tíu o.s.frv. Það breytir í mínum huga ekki þeirri staðreynd að ákvæði stjórnarskrárinnar, um það hvernig með skuli fara, þegar í hlut á að falla frá saksókn — það sé ekki hægt með þeim lögskýringum sem hér hafa verið hafðar uppi að fara fram hjá því beina ákvæði.

Af því minnst var á ágæta grein prófessors Róberts Spanós í Fréttablaðinu 10. janúar síðastliðinn verð ég að segja eins og er að ég er ekki sammála þeirri greiningu sem prófessorinn gerir þar og halla mér frekar að þeim túlkunum sem eldri fræðimenn hafa haft á þessu, Ólafur Jóhannesson, Gunnar Schram og Bjarni Benediktsson, um að þetta sé ekki hægt.

Ég held að Róbert Spanó geri sig sekan, svo við förum í lögfræðilega þrætu um það, að beita túlkunum sínum svolítið rúmt á þær undantekningarreglur og þær sérreglur sem í stjórnarskránni eru. Hann segir til dæmis í grein sinni að Alþingi hafi eftir sem áður greinilega frumkvæði að slíkri afturköllun án atbeina forseta standi til þess meiri hluti. Rökin fyrir þessum skilningi séu einkum eftirfarandi, og hann fer síðan í gegnum þau. Engin af þeim finnst mér vera mjög sannfærandi. Það þarf að rökstyðja það mjög vel ef víkja á frá beinum ákvæðum stjórnarskrár og viðurkenndum túlkunum.