140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að það er svolítið sérstakt að koma upp á eftir svona afbragðsræðu eins og hér var flutt af mikilli einlægni. Ég er þó ekki að segja að aðrir hafi ekki gert slíkt hið sama, flutt ræður sínar af einlægni, en hér var vel skrifuð ræða flutt af mikilli sannfæringu sem ég vona að þingmenn hafi tekið eftir.

Það sem maður veltir fyrir sér með þetta mál er hvort því sé beitt sem kallað hefur verið grímulausar hótanir eða þá að menn séu dregnir afsíðis og þeim bent á hvernig fyrir þeim gæti farið ef þeir gera ekki eins og foringinn segir eða flokksforustan og það sé til þess að ná einhverri niðurstöðu sem hugnast einhverjum, sem ég veit ekki alveg hverjir eru.

Ég hugsa líka til þess að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki látið sjá sig hér í þessari umræðu, ekki tekið til máls, ekki sagt eitt einasta orð um það hvað henni sem forustumanni í ríkisstjórninni finnst um þetta mál. Þó hefur verið kallað eftir því, á hana hefur verið deilt, forsætisráðherra gagnrýndur mjög fyrir framgöngu sína og ráðherra minntur á veru sína í ríkisstjórn frá 2007, í hrunstjórninni, ábyrgð forsætisráðherra í þeirri stjórn. Ég tek fram, herra forseti, að þótt ég gagnrýni hér forsætisráðherra og þá sem voru í ríkisstjórn bera aðrir ábyrgð og þar ekki síður framsóknarmenn og Framsóknarflokkurinn. Undan því skorumst við ekki á nokkurn hátt. Ég veit að þeir sem hafa talað hér fyrir hönd þeirra flokka, a.m.k. margra hverra, eru sama sinnis. Mér finnst helst vanta upp á það frá flokki forsætisráðherra að menn viðurkenni einhverja sök eða ábyrgð einhvers staðar. Ég veit þó að undan má skilja einhverja og hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, flutti hér mjög góða ræðu í dag sem var eftirtektarverð.

Herra forseti. Mér sýnist komið að leiðarlokum í þessari umræðu. Þá er mjög mikilvægt að þeir sem hugsanlega hafa verið beittir hótunum láti það ekki stjórna ákvörðun sinni heldur reyni að horfa til réttlætis og sanngirni. Þetta segi ég vegna þess að ég hef verið að velta fyrir mér orðum formanns eins samfylkingarfélags sem sagði, með leyfi forseta:

„Það yrði mjög alvarlegur trúnaðarbrestur sem hefði ófyrirséðar afleiðingar fyrir flokkinn. Í það minnsta mun það leiða til harkalegra átaka sem munu væntanlega endurspeglast í því þegar fólk verður valið á framboðslista með haustinu.“

Ég vona svo sannarlega að þingmenn sem þarna er átt við taki ekki mark á þessari hótun. Það er mjög óheppilegt þegar forustumenn í stjórnmálafélögum og flokkum stíga svona fram og beina ljósinu að vandanum, þ.e. upplýsa okkur um hvað býr að baki. Það eru hótanir. Nú er búið að hóta þingmönnum að þeir eigi á brattann að sækja í prófkjöri muni þeir ekki greiða atkvæði eins og ályktað hefur verið. Þetta er áhyggjuefni, en það er að sjálfsögðu þingmannanna að vinna úr þessu og bregðast við.

Ég vona hins vegar, herra forseti, svo sannarlega að þessi tillaga fái efnislega meðferð í þinginu. Ekki er nóg með að málið sé í sjálfu sér einstakt heldur hefur komið fram hjá allmörgum þingmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu hér þegar ákæra var samþykkt að þeir telji að með einhverjum hætti hafi verið haft rangt við og því þurfi að skoða málið frekar og leita leiða til þess jafnvel að bæta úr og gera betur.

Það hefur verið bent á fjölmörg álitaefni, bæði af þingmönnum, í blaðaskrifum, af lögmönnum og prófessorum við háskóla landsins eða sem starfa sjálfstætt. Á þetta þurfum við að hlusta því að það má ekki leika vafi á því í mínum huga að Alþingi hafi tekið rökrétta, sanngjarna og heiðarlega afstöðu þegar ákveðið var að kæra einn ráðherra fyrir, ég vil leyfa mér að segja margra ára yfirsjónir, mistök eða hvað við köllum það. Það er ekki sanngjarnt. Það er ekki rétt að (Forseti hringir.) við þingmenn stöndum í því hér.