140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur verið, held ég að megi fullyrða, að stærstum hluta málefnaleg og góð. Ég vek athygli á því, sem er umhugsunarvert, að ég held að enginn hafi treyst sér til að fullyrða, núna þremur árum eftir bankahrunið, að við séu komin á þann stað sem við viljum vera á. Ég hef ekki heyrt neinn halda því fram að þetta svokallaða uppgjör hafi verið þannig að fólk sé sátt við það eða líði vel með það. Hér er talað um það eins og sjálfsagðan hlut að hér séu viðhafðar hótanir til að sjá til þess að hv. þingmenn greiði atkvæði rétt.

Virðulegi forseti. Það er líka umhugsunarefni að það er varla fréttnæmt að hv. þingmenn séu beittir hótunum til þess að þeir greiði atkvæði rétt eða hagi sér eins og pólitískir foringjar vilja að þeir hagi sér. Alveg burt séð frá persónum og leikendum hvet ég alla hv. þingmenn til að hugsa þetta. Vilja menn hafa hlutina svona?

Allt sem við gerum skapar fordæmi og ég hvet menn til að hafa það í huga. Hér er komin tillaga um að vísa máli frá. Ef menn samþykkja slíka tillögu núna geta þeir auðvitað gert það í nánustu framtíð. Þá er komið fordæmi fyrir því að vinna þannig á hinu hv. Alþingi. Hvað þýðir það, virðulegi forseti, að vísa máli frá? Það þýðir einfaldlega að það fær ekki eðlilega þingmeðferð.

Ég vek athygli á því að hér greiddu 63 þingmenn atkvæði með tillögu sem gengur út á að styrkja löggjafarþingið, sjá til þess að hér yrði faglegri og betri vinna. Ég held að flestir hv. þingmenn hafi á einhverjum tímapunkti talað um mikilvægi þess að þannig skyldum við vinna. Það liggur alveg fyrir að við værum ekki að ræða þessa tillögu nema vegna þess að virðulegur forseti samþykkti og taldi hana vera þinglega og hefur án nokkurs vafa, eins og allir vita, ráðfært sig við þá starfsmenn þingsins sem best þekkja til hér. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að við ætlum samt sem áður að vísa máli frá, koma í veg fyrir að það fái eðlilega, þinglega meðferð, hvað stoppar menn þá í að gera það í öðrum málum?

Átta menn sig á því hvert við erum komin ef menn koma með þau rök að málið sé svo arfavitlaust að við ætlum bara að vísa því frá þá? Ég get haldið hér langa ræðu um það hvað hæstv. ríkisstjórn hefur komið með mörg arfavitlaus mál. Það er hægt að færa fullgild rök fyrir því að þessi hæstv. ríkisstjórn hafi komið með fleiri arfavitlaus mál en nokkur önnur. Það er alveg hægt að fara málefnalega yfir það. (Gripið fram í.) Ég verð að viðurkenna að þó að mér finnist gott að hæstv. ráðherrar séu með kímnigáfu finnst mér þetta mál ekkert sniðugt. (Utanrrh.: … heilbrigðismálunum …?) Nei, hæstv. ráðherra, það mun ég aldrei gera. Ég var afskaplega stoltur af því, (Gripið fram í.) afskaplega stoltur af þeim verkum. En það er fullkomið aukaatriði í þessu.

Ég vona að það verði aldrei regla í þessu þingi að þegar menn eru ósáttir við pólitísk mál komi þeir hingað og segi: Við ætlum að vísa málinu frá. Það mun ekki fá eðlilega þinglega meðferð. Svo sannarlega hafa menn þó á öllum tímum þinglegan meiri hluta til að ganga þannig fram.

Ég hvet menn líka til að hugsa aðeins um þá röksemd sem hér hefur komið fram um að það sé hreinlega gott fyrir fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, að fara fyrir dóm af því að það sé svo gott tækifæri til þess að hreinsa sig. Ef það á við þann einstakling, þann Íslending, á það auðvitað við alla. Vilja menn búa í þjóðfélagi þar sem það þykir sjálfsagt og eðlilegt fyrir viðkomandi einstakling að vera sóttur til saka fyrir dómstólum til þess að hann geti hreinsað sig?

Ég trúi ekki öðru en að þegar menn hugsa það alla leið komist þeir að þeirri niðurstöðu að í þannig þjóðfélagi viljum við ekki búa.

Virðulegi forseti. Svo sannarlega er tortryggni enn þá í þjóðfélaginu. Ég held að flestir séu á því að hvorki hafi vinnubrögð breyst — ég tel að vísu að þeim hafi farið aftur, ég eyði stórum hluta af mínum tíma, eins og flestir þingmenn, í að reyna að fá upplýsingar sem ekki fást. Hér áttu menn að samþykkja Icesave-samkomulagið. Ég sat í þeirri hv. þingnefnd sem fékk fyrstu gestina og spurði fulltrúa hæstv. fjármálaráðherra á fundinum: Megum við fá að sjá samninginn? Ég mun aldrei gleyma svarinu:

Nei, að sjálfsögðu fáið þið ekki að sjá hann. Þetta eru samningar við þriðja aðila sem tengjast ykkur ekki.

Þegar ég gekk eftir því sagði fulltrúi hæstv. fjármálaráðherra á endanum að hugsanlega gæti Ríkisendurskoðun skoðað samninginn og túlkað hann ofan í þingmenn.

Virðulegi forseti. Ég mun aldrei gleyma þessum orðaskiptum. Og ég vek athygli á því að Icesave-samningurinn fór fyrst á internetið, síðan fengum við hv. þingmenn sem áttum að taka ákvörðun í þessu stóra máli að sjá hann. Þetta var í þessari röð.

Hér fór fram langstærsta einkavæðing Íslandssögunnar, á bönkunum, og þrátt fyrir síendurteknar fyrirspurnir um hluthafasamkomulagið sem hæstv. ríkisstjórn gerði er það enn ekki komið í ljós.

Í mars 2009 kom yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að nú væri vandræðum á fjármálamarkaði lokið, nú mundu ekki fleiri fjármálafyrirtæki lenda í vandræðum. Síðan hafa níu fjármálafyrirtæki farið á höfuðið. Það er alveg ljóst að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki farið eftir lögum varðandi til dæmis sparisjóðina Byr og SpKef. Og enn eru ekki komnar fram upplýsingar í því máli, virðulegi forseti. Þó er ljóst að framganga hæstv. fjármálaráðherra hefur verið kostnaðarsöm fyrir skattgreiðendur.

Virðulegi forseti. Hér hefur margt verið sagt og farið mjög vel yfir efnisatriði þessa máls. Ég held að allir viti hvar ég stend í því. Það sem ég ætlaði þess vegna að gera í þessari stuttu ræðu var að hvetja menn til að hugsa um það hvaða afleiðingar gerðir okkar hér í dag hafa. Ef við sköpum það fordæmi að það sé sjálfsagt og eðlilegt að mál fái ekki hefðbundna þinglega meðferð vegna þess að við séum andsnúin því verður það alveg örugglega gert aftur. Ég trúi því að við viljum öll sjá hér betri vinnubrögð, við höfum öll sagt það. Ég held að við séum öll sammála um að við erum víðs fjarri því að hafa náð því markmiði en við getum gert vont ástand enn þá verra með því að samþykkja þessa frávísunartillögu.

Ég hvet okkur síðan til að fara málefnalega yfir það hvernig við getum unnið hér saman að því að efla traust í þjóðfélaginu. Mér finnast hugmyndir (Forseti hringir.) um sannleiksnefndir nokkuð sem við ættum að skoða mjög vel.