140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Sú tillaga sem hér er lögð fram um rökstudda dagskrá felur það í sér að málið mundi, ef hún yrði samþykkt, ekki fá frekari efnislega meðhöndlun í þinginu og jafngilti því að málinu væri í raun vísað frá eftir þessa fyrri umr. Það tel ég að sé ómöguleg niðurstaða.

Ég tel jafnframt að það sem fært hefur verið fram sem rökstuðningur fyrir þessari tillögu standist ekki skoðun, fyrir því hef ég fært rök í mínu máli.

Ég bendi á að þeir sem halda því fram að málið sé ekki þannig vaxið að þingið hafi í raun heimild — takið eftir því, það er vakin athygli á því í rökstuðningi með þessu máli að þingið hafi ekki heimild til að gera neitt annað en að vísa málinu frá — koma fram með þá röksemdafærslu of seint vegna þess að ákvörðun var tekin á fyrri stigum um að málið færi hér á dagskrá. Þannig hefur verið skorið úr um það að þingsályktunartillagan sem ég mælti hér fyrir er þingtæk.