140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:23]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér sýnist á atkvæðatöflunni að þessi frávísunartillaga sé fallin á jöfnu. Því er þetta dökkur dagur í sögu þingsins. Alþingi Íslendinga hefur með pólitískum bolabrögðum náð að grípa inn í gang dómsmáls. Hið pólitíska vald hefur seilst inn á svið dómsvaldsins.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um hugtakið réttlæti í þessari umræðu. Sé það til er víst alveg ábyggilegt að það nær ekki fram að ganga í þessum sal. Réttvísin á heima í dómsölum. Sem ein af meginstoðum stjórnskipunarinnar stendur Alþingi ekki lengur undir nafni því að þessi svokallaða meginstoð í þrískiptingu valdsins er augljóslega svo maðksmogin og fúin af pólitískum vélráðum að hún er eiginlega orðin ónýt eftir þessa atburði.