140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir.

[13:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að vakið sé máls á þessu málefni í þingsal. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við efnum til víðtækrar samstöðu um baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, lögreglan hefur staðið vel í stykkinu hvað þetta snertir um alllanga hríð, en hefur enn eflt sig í þessu efni upp á síðkastið og þá með stuðningi okkar, fjárveitingavaldsins á Alþingi. Fyrirhugað samstarf sem nú er verið að efna til á milli allsherjarnefndar, innanríkisráðuneytisins og lögreglunnar er mjög mikilvægt að mínum dómi. Þetta samstarf þarf að vera mjög víðtækt, það þarf að vera þverpólitískt, þverstofnanalegt og við þurfum að virkja samfélagið allt með okkur.

Hvað varðar forvarnarannsóknarheimildir hef ég verið varfærinn í þeim efnum þegar það hefur verið til umræðu á undanförnum árum og dregið mjög skýrar línur hvað það varðar. Ég hef viljað auka möguleika lögreglunnar á að fylgjast með skipulegri glæpastarfsemi en ég vil hafa mjög afdráttarlaus landamæri á milli slíkrar starfsemi, skipulagðrar glæpastarfsemi, og alls því sem flokkast undir grasrótarsamtök eða stjórnmál. Um þetta er góð sátt á milli okkar og lögreglunnar, góður skilningur á því að allt sem er gert sé með nákvæmlega þetta í huga.

Ég þakka vilja hv. alþingismanns til að taka þátt í þessu (Forseti hringir.) víðtæka samstarfi sem verið er að efna til.