140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir.

[13:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er einmitt mikilvægt að það komi fram af hálfu hæstv. utanríkisráðherra að við eigum að vera varfærin í þessu máli. Ég er ekki sammála því að við eigum að henda inn forvirkum rannsóknarheimildum án mjög ítarlegrar umræðu. Það eru einmitt þessi fínu mörk sem við verðum að finna og þess vegna tel ég mikilvægt að við fáum sem fyrst inn frumvarp hæstv. innanríkisráðherra þannig að við getum unnið það saman við það þingmannamál sem þegar liggur fyrir til að finna þessi mörk, til að skoða betur hvað verið er að gera á Norðurlöndunum þannig að við séum það sem kallað er í „sinki“ við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Það er mikilvægt. Í ljósi þess að landamæri eru opin og heimurinn alltaf að minnka verðum við Íslendingar að vera vel vakandi.

Þess vegna fagna ég þessari áherslu hæstv. innanríkisráðherra og því að hann vill beita sér enn frekar fyrir samstarfi milli þings og framkvæmdarvalds.

Í þessu samhengi er líka mikilvægt að huga að því að kortleggja málin. Ég veit að unnið er að því innan ráðuneytisins og ég tel mikilvægt að við fáum öll gögn og upplýsingar, þar með talið frumvarpið frá hæstv. innanríkisráðherra, (Forseti hringir.) sem allra fyrst inn í þingið.