140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

formennska í Samfylkingunni.

[13:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í stórmerkilegu viðtali, leyfi ég mér að segja, í Viðskiptablaðinu 29. desember er rætt við hæstv. utanríkisráðherra. Í því viðtali fer hæstv. utanríkisráðherra vítt um völlinn eins og góðum stjórnmálamönnum sæmir. Hann talar um ýmislegt, lýsir mikilli ást á Framsóknarflokknum í því viðtali og er ljóst að mikill söknuður er í hjarta utanríkisráðherra yfir að hafa þann flokk ekki með í ríkisstjórn. Ég vona hins vegar að svör hæstv. utanríkisráðherra muni ekki snúast um ást hans á Framsóknarflokknum hér á eftir heldur um þær spurningar sem ég beini til hans.

Í viðtalinu kemur einnig fram að utanríkisráðherra virðist telja að Samfylkingin þurfi á nýrri forustu að halda, að það þurfi að skipta um formann í Samfylkingunni. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann telji að það þurfi að gerast fyrr en síðar. Stendur það Samfylkingunni fyrir þrifum í dag að hafa ekki farið í þá vegferð sem hún þurfti að fara í, sem allir sjá að þörf er á, þ.e. að skipta um forustu. Maður veltir fyrir sér hvort Samfylkingin sé hreinlega að missa af hinni pólitísku lest þar sem mörg ný framboð eru í gangi. Einhverjir flokkar hafa gengið gegnum miklar breytingar á forustu og í hugmyndafræði, en Samfylkingin virðist einhvern veginn hafa misst af lestinni. Ég spyr hvort þessar vinsamlegu ábendingar hæstv. utanríkisráðherra séu til þess fallnar að ýta málum áfram og hvort utanríkisráðherra sé þá að boða okkur það að nú sé tími forsætisráðherra liðinn og því þurfi að koma fram ný og sterk forusta.