140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

rammaáætlun í virkjunarmálum.

[13:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra hólyrðin um Sjálfstæðisflokkinn sem sýnir best að hann hefur ekki alveg gleymt uppeldinu. (Utanrrh.: … ekki ríkisstjórn.) Ég átti við hann, já.

Að öðru leyti vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra. Í fyrrahaust var lögð fram skýrsla nefndar um svokallaða rammaáætlun. Þeirri nefnd var ætlað að meta virkjunarkosti, m.a. út frá náttúruverndargildi, arðsemi og byggðaþróun. Á grundvelli þessa var virkjunarkostunum skipað í þrjá flokka, nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Eins og menn vita er þetta mál stjórnskipulega á forræði hæstv. iðnaðarráðherra en hins vegar hefur verið frá því greint að þetta mál sé unnið af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra í samráði við hæstv. umhverfisráðherra og að ætlunin sé að þá komi fram sameiginleg tillaga hæstvirtra ráðherra, þar á meðal væntanlega ríkisstjórnarinnar, um það hvernig þessu máli vindur síðan áfram.

Það hefur verið boðað, m.a. í nýrri þingmálaskrá sem dreift var af hálfu hæstv. forsætisráðherra eftir áramótin, að þingmál sem byggði á þessari skýrslu nefndarinnar yrði lagt fram fyrir mánaðamótin, þ.e. strax í byrjun næstu viku. Ég tel að ætla hefði mátt að þetta mál hefði getað komið fram miklu fyrr. Þessi skýrsla var vel unnin. Auðvitað getur menn greint á um einstök atriði hennar, en að öðru leyti var þetta vel unnið plagg og því hefði mátt ætla að það hefði verið hægt að leggja þingmálið fram miklu fyrr.

Ég spyr þá hæstv. umhverfisráðherra tveggja spurninga, í fyrsta lagi þessarar: Verður staðið við þá tímasetningu sem boðuð er í þingmálaskrá hæstv. forsætisráðherra um að þetta mál verði lagt fram í byrjun næstu viku?

Í öðru lagi: Má búast við því að gerðar verði breytingar á þeim tillögum sem núna liggja fyrir, t.d. með því að þeim kostum sem búið var að skipa í nýtingarflokk verði fækkað og þeir settir annaðhvort í biðflokk eða verndarflokk? Ég tel að það væri eðlilegast að þetta plagg yrði lagt fram (Forseti hringir.) í þinglegum búningi eins og það leit dagsins ljós í fyrrahaust.