140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

styrkir frá ESB.

[13:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Hann vitnar réttilega í greinar sem ég skrifaði af ærnu tilefni og var ég þá að vísa í styrki sem Evrópusambandið hefur veitt, m.a. þjóðum sem sækja um aðild að Evrópusambandinu, í aðlögunarskyni. Þeir hafa verið kallaðir „Pre-Accession“-styrkir. Ég hef haldið þeim málstað mjög hart fram að við eigum ekki að taka við slíkum styrkjum. Einvörðungu eigum við að taka við peningum sem lúta að tæknilegum atriðum og tengjast umsóknum sérstaklega, þýðingarstyrkjum og öðru af því tagi.

Ég hef haft þau orð um margar styrkveitingar Evrópusambandsins að þær séu mér lítt geðfelldar. Kannski er áhrifaríkara að setja stafinn ó fyrir framan og segja að þær séu ógeðfelldar því að það eru þær. Þetta eru peningar sem Evrópusambandið heldur mjög hart að ríkjum sem það vill að þýðist sig. Það er úthugsuð staðreynd og það umhugsunarverða er að með aðlögunarstyrkjum lætur Evrópusambandið þjóðir, stofnanir, fyrirtæki og aðra aðila fá peninga án þess að þeir aðilar kynnist þeim sem greiðir peningana. Það er einhver sem borgar. Hverjir borga þessa styrki? Það eru að sjálfsögðu aðilar að Evrópusambandinu sem greiða peningana og það er það sem við kæmum til með að gera ef við gengjum í Evrópusambandið þannig að við erum að kynnast þannig styrkjum. Margir fagna peningum sem hingað koma en þetta er náttúrlega veruleikinn. Það er einhver sem borgar og það yrðum við sem borguðum ef við gengjum í Evrópusambandið. (Gripið fram í: En við erum … peningum?)