140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

styrkir frá ESB.

[13:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég taka fram að við höfum staðið gegn þessum styrkjum sem við teljum óeðlilega og þar vísa ég til innanríkisráðuneytisins sérstaklega en ég tala fyrir hönd þess til þess umhverfis sem ég þekki helst.

Það er alveg rétt að það þarf að gæta jafnræðis í kynningarmálum og reyndar er það fólgið í því að jafnræði ríki milli aðila innan lands en ekki að það komi utanaðkomandi aðili og heimti jafnræði á borð við okkur gagnvart þeim sem taka þátt í þessari umræðu hér.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að stofnanakerfið ánetjist þessari umræðu, því að nú er talað um eldvatnið. Hvernig stendur á því að alltaf þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins, það er mjög algeng regla, er stofnanaveldið, hvort sem það er verkalýðshreyfing, atvinnurekendasamtök eða stjórnsýslan, hlynnt (Forseti hringir.) en almenningur á móti? Það er vegna þess að það er búið að fara með flugvélafarma viku eftir viku, mánuð eftir mánuð (Forseti hringir.) út til Brussel þar sem menn halda við (Forseti hringir.) á kostnað ríkisins. Þetta fólk ánetjast (Forseti hringir.) Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir, (Forseti hringir.) fleiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þetta sem er að gerast, það er þess vegna sem stofnanaveldið (Forseti hringir.) ánetjast Evrópusambandinu.