140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

ferðamál hreyfihamlaðra.

[14:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég ætla að hreyfa hérna við réttlætismáli að mínu mati sem lýtur að möguleikum fólks með skerta hreyfigetu. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra til skriflegs svars í mars í fyrra sem hljóðaði svo:

„Hvað líður undirbúningi lagafrumvarps sem heimili ferðir hreyfihamlaðra á vélknúnum ökutækjum utan vega á leiðum sem aðeins er leyft að fara um fótgangandi, svo þeim sé gert kleift að njóta útivistar sem er þeim annars illmöguleg, t.d. stangveiða eða ferða um þjóðgarða og önnur vernduð svæði?“

Í svarinu sem ég ætla að rekja hér á eftir kemur fram ákveðinn vilji til að gera breytingar, en svo háttar til um þetta mál að það bar að mínu borði í gegnum einstakling sem heitir Jón Gunnar Benjamínsson. Hann útskrifaðist sem ferðamálafræðingur árið 2005, starfaði sem leiðsögumaður og við ráðgjöf í ferðamálum, bæði á Íslandi og í Noregi árið 2005, en varð fyrir því óhappi að slasast í umferðarslysi á Hellisheiði 2007 og er lamaður neðan mittis eftir það hörmulega slys. Hann einsetti sér hins vegar að láta þetta ekki koma í veg fyrir að hann yrði virkur þjóðfélagsþegn og hefur barist í þessu máli síðan en verið kastað á milli stofnana hjá ríkinu.

Í svari hæstv. umhverfisráðherra kom fram að hún hefði hug á því að gera breytingar á þeirri reglugerð sem þar um ræðir. Það var í mars 2011. Ég hef ekki fengið neinar fréttir af því hvernig þessu máli hefur reitt fram og kalla eftir svörum frá hæstv. ráðherra um hvað líði þessari vinnu og hvenær þess megi vænta að hún (Forseti hringir.) sendi til umsagnar þá breyttu reglugerð sem hér var lofað fyrir ári.