140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

ferðamál hreyfihamlaðra.

[14:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka þau svör sem hæstv. ráðherra gaf, svo langt sem þau ná. Ég undirstrika að þetta mál varðar ekki eingöngu þennan eina einstakling. Þetta lýtur að möguleikum fólks með skerta hreyfigetu á Íslandi, sem er tiltölulega stór hópur, en eins og kom ágætlega fram í máli hæstv. ráðherra virðist eins og að regluverkið sem búið er að setja á ýmsum sviðum þjóðfélagsins komi í veg fyrir að þessi stóri hópur geti með sómasamlegum hætti nálgast stór landsvæði hér á landi og notið þeirra gæða sem í náttúru Íslands felast. Í mínum huga er það grundvallaratriði að koma þeim málum sem hér um ræðir í miklu betri skikk en raun virðist vera á. Ég harma þann drátt sem orðið hefur á afgreiðslu þessa máls, ég geri mér grein fyrir því að þetta er flókið en það er ekki sómasamlegt að koma þannig fram við þennan stóra hóp að honum sé meinaður aðgangur að stórum hluta landsins. Það er (Forseti hringir.) ekki veruleikinn sem við viljum deila.