140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

ferðamál hreyfihamlaðra.

[14:06]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega það sem málið snýst um, þetta prinsipp um aðgengi, þ.e. að tryggja eins og nokkur kostur er aðgengi hreyfihamlaðra og reyndar annarra hópa, bæði sjón- og heyrnarskertra, að mannvirkjum og náttúrunni. Hins vegar erum við væntanlega ekki að tala um færi fyrir hreyfihamlaða á öll svæði, því miður. Við getum nefnt Hvannadalshnjúk eða önnur þvílík svæði sem væru erfið í útfærslu.

Ég vil nefna hér að í verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs er sérstaklega gert ráð fyrir því að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra að svæðum með stígum, skiltum og því um líku. Sá ráðherra sem hér stendur er mjög meðvitaður um mikilvægi mannréttinda þeirra sem búa við fötlun.