140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Eins og ég skil fyrri spurningu hv. þingmanns er svarið jú. Ég vona að ég hafi ekki misskilið hana. Hv. þingmaður er að velta fyrir sér hvað gerðist ef þessi rammasamningur yrði felldur. Við héldum að sjálfsögðu áfram með umsóknina, við þyrftum að leggja fram fé til að standa straum af, við skulum segja ákveðnum breytingum við undirbúning nýrrar tollskrár, hugsanlega af skattkerfishugbúnaði og ýmsu öðru eins og hv. þingmaður veit. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það mundi lenda á íslenskum skattgreiðendum eins og ég skil spurningu hv. þingmanns.

Seinni partur spurningarinnar liggur náttúrlega í augum uppi. Evrópusambandið er alþjóðleg stofnun um svona verkefni á vegum alþjóðastofnana, eins og til dæmis stuðningsverkefni Sameinuðu þjóðanna. Um það gilda þessar reglur. Svo geta menn deilt um hvort það er rétt eða rangt, en þetta er það sem gildir um stofnanir af þessu tagi. Þetta er það sem gildir til dæmis (Forseti hringir.) um þau verkefni sem við höfum tekið þátt í í 18 ár varðandi mennta- og rannsóknaáætlanir EES. Þetta er ekkert öðruvísi.