140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þetta innlegg, þetta var ekki beint fyrirspurn að mínu mati. Ég get ekki gert að því ef hæstv. utanríkisráðherra gerir sér ekki grein fyrir því um hvað ég er að tala. Hann sagði að það væri ekki ljóst hvað ég hefði átt við með ræðu minni. Hæstv. utanríkisráðherra og þingheimi öllum ætla ég að segja í upphafi þessarar umræðu að ég vil ekki sjá þessa peninga. Ég vil ekki sjá að Evrópusambandið komi með peninga inn í íslenskt hagkerfi til þess eins að undirbúa það að við Íslendingar þurfum að ganga því á hönd. Þetta er alþekkt úr starfsemi Evrópusambandsins enda hafa mörg ríki undanfarin ár ánetjast þessum peningagreiðslum Evrópusambandsins og gengið í Evrópusambandið. Þessa peninga vil ég ekki sjá.

Úr því að vilji ríkisstjórnarinnar er sá að taka við þessum greiðslum sagði ég að þær mundu nýtast illa fyrir íslenskt samfélag. Hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan í andsvari við þingmann: Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Okkur vantar pening inn í ríkissjóð, svo þegar peningarnir koma inn í ríkissjóð frá Evrópusambandinu eru þingmenn á móti því að taka við þeim til uppbyggingar hér.

Peningarnir eru eyrnamerktir eftirlitsiðnaðinum sem EES-samningurinn hefur leitt af sér hér á landi. Hæstv. utanríkisráðherra skal aldrei aftur tala hér um að þessir peningar fari inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða aðra þætti samfélagsins sem þessi verklausa ríkisstjórn hefur skorið niður í stórum stíl. (Gripið fram í.) Þannig ýjaði hann að því í andsvari áðan og það skal leiðrétt hér. Svo skulum við tala um hver (Forseti hringir.) það er sem talar út og suður.