140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Síðasta setningin í ræðu hv. þingmanns lýsti því í hversu litlum tengslum margir hv. þingmenn eru við raunveruleikann því að þeir telja að þeir séu komnir inn. (VigH: Rétt.) Það er vegna þess að þeir eru farnir að ánetjast, eins og hæstv. innanríkisráðherra (Gripið fram í.) komst að orði í morgun.

En hv. þingmaður kom með áhugaverðan punkt og ítrekaði það sem fram kom í fyrri ræðu hans, að þetta væri fallið til að gera breytingar til að undirbúa okkur undir aðild þannig að ef til þess kæmi að þjóðin segði já værum við búnir að ráðast í breytingar á regluverki okkar. Til þess eru fjármunirnir, styrkirnir, sem við ræðum um. Því er ekki hægt að lýsa öðruvísi en eins og hv. þingmaður komst að orði, hann talaði um aðlögunarferli og sagði það einmitt í ræðu sinni. Ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir hreinskilni hans. Það sem er athugavert við þetta er að þeir fjármunir sem fara í þessi mál með mótframlögum frá íslenska ríkinu, ekki skal gleyma því, eiga að vera skattfrjálsir þannig að glerperlurnar og eldvatnið sem eiga að smyrja kerfið eiga að vera skattfrjáls (Forseti hringir.) á sama tíma og hv. þingmaður keppist við (Forseti hringir.) að hækka skatt á almenning, á fyrirtæki í landinu. (Forseti hringir.) Það er alveg með ólíkindum, hv. þingmaður.