140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrst fyrir mér hvort Evrópusambandið sé alþjóðastofnun, hvort IPA-styrkirnir séu hluti af alþjóðlegri stofnun. Evrópusambandið er ríkjabandalag, stefnir í að verða einhvers konar ríkjasamband, eða maður heldur að þróunin sé í þá áttina, þannig að ég fæ ekki alveg skilið þessi tengsl þarna á milli.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í það sem hann nefndi einangrunarhyggju, hvort það geti verið einangrunarhyggja að vilja vera land sem getur samið við hvaða ríki sem er í heiminum um hvað sem því dettur í hug, hvort ekki sé meiri einangrunarhyggja fólgin í því að ganga í Evrópusambandið og missa þar af leiðandi réttinn til að gera til dæmis fríverslunarsamninga við erlend ríki. Er það ekki meiri einangrunarhyggja en það að vera frjáls og geta gert það sem maður vill? Hvaða áhrif mun það til dæmis hafa á samninga okkar við Færeyinga ef við göngum í Evrópusambandið? Hefur það verið skoðað? (Gripið fram í.) Munum við geta gert samninga við Bandaríkin, ef við kjósum það? Nei. Munum við geta gert samninga við Kína eftir að við göngum inn í Evrópusambandið ef við kjósum það? Nei, Evrópusambandið mun gera þessa fríverslunarsamninga.