140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki á nokkurn hátt spurningunni sem hér var borin fram, hvort það gæti talist einangrunarhyggja að vilja hafa frelsi til að semja við allar þær þjóðir sem okkur dettur í hug, hvort sem það er við Evrópusambandið, Kína, Bandaríkin eða hvað það er, eða að loka sig inni í einhverju sambandi eða bandalagi sem semur fyrir okkar hönd.

Þá kemur makríllinn upp í hugann. Hvernig hefði staðan verið á makrílsamningunum ef við hefðu verið komnir inn í Evrópusambandið? Hvernig hefði það verið? Við hefðum þá væntanlega þurft að semja við okkur sjálf ef við værum þar inni.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í lýðræðishallann úr því að hér var nefnt áðan í ræðu eða andsvari að almannahagsmunir væru svo miklir í Evrópusambandinu. Nánast í hvert skipti sem fjallað er um lýðræði í Evrópusambandinu er dregin upp sú mynd að það sé bara bullandi lýðræðishalli, það er viðurkennt. Við vitum það alveg og sjáum. Þegar verið er að taka ákvarðanir í Evrópusambandinu, hverjir hittast þá? Merkel og Sarkozy. Þau taka ákvarðanir. Eru það almannahagsmunir? Jú, þetta er nefnilega með þessum hætti.

Mig langar að velta því fyrir mér, úr því að hv. þingmaður talar mikið um að fá að greiða atkvæði um samninginn í lokin — og ég er algerlega sammála honum. Ef hingað kemur samningur þá á þjóðin að sjálfsögðu að greiða atkvæði um hann. En hvers vegna mátti þjóðin ekki greiða atkvæði um það hvort farið yrði í þessa vegferð? Hvers vegna mátti hún það ekki?