140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:23]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir varð málefnalegri eftir því sem leið á ræðuna. Fyrst sagði hún að ég væri sannfærður Evrópusambandssinni. Ég tók einmitt margsinnis hið þveröfuga skýrt fram í ræðu minni áðan, að ég er ekki talsmaður þess að við göngum í Evrópusambandið án þess að samningsferli verði á undan. Ég tók einmitt fram þann fyrirvara að ég áskildi mér rétt til að hafna þeim samningi ef hann væri lélegur.

Góður samningur fyrir Íslendinga, allan almenning, fólk og fyrirtæki, gagnvart Evrópusambandinu, hann sækir fram á styrkleikum landbúnaðarins; hann sækir fram á styrkleikum sjávarútvegsins, sem eru meginstoðir í okkar lífi; hann eykur erlent fjármagn í ferðaþjónustu, sem er þriðja meginstoðin í okkar viðskiptalífi; hann tryggir regluverk sem er á pari við það besta hjá helstu samkeppnisþjóðum heims þegar kemur að opinberri þjónustu, bankaviðskiptum og öðru slíku. Ef þessi samningur verður til að auka hag alls almennings, fólks og fyrirtækja, sem verður hægt að reikna út þá mun ég greiða atkvæði með honum.