140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi verðtrygginguna, verðtryggðir samningar eru verðtryggðir samningar og þó að skipt sé um mynt breytist verðtryggingin ekki nema greiddar séu bætur. Ég get því ekki séð að upptaka evrunnar, eins og sumir hafa verið að lofa, breyti einhverju um það að verðtryggingin hverfi. Það verða þá bara verðtryggðar evrur. Nú er það svo að verðbólga er að aukast mjög mikið í Evrópusambandinu vegna þess hve menn dæla miklum peningum út úr ríkissjóðum og það er ekkert lát á því í náinni framtíð. Það má vel vera að verðtryggð evra sé ekkert léttbærari en verðtryggð króna þegar til lengdar lætur. En mér finnst að þeir fylgismenn sem vilja að Íslendingar gangi í Evrópusambandið, sæki ekki bara um heldur gangi í Evrópusambandið, séu að lofa alls konar hlutum, eins og því að verðlag lækki, eins og því að verðtrygging hverfi. Þetta eru allt saman loforð sem eru út í bláinn, það er ekki hægt að lofa því að verðtryggingin hverfi. Við getum bara hætt sjálf í dag, við getum sett lög um að afnema verðtryggingu á nýjum samningum frá og með deginum í dag. Það er enginn vandi. Við getum til dæmis líka farið að flytja inn landbúnaðarvörur alls staðar úr heiminum, meira og minna niðurgreitt, í samkeppni við íslenskan landbúnað og lækkað þannig vöruverð. Auðvitað fer vöruverð á Íslandi aldrei niður fyrir það sem er erlendis vegna einangrunar landsins og hve markaðurinn er lítill en það má lækka það verulega með því að afnema tolla og annað slíkt sem við erum með á þessu í dag. Það er óháð því að ganga í Evrópusambandið. Öll þessi loforð þar sem menn eru með einhvern hókus-pókus og ætla að leysa vanda heimilanna sem eiga í verulega miklum vanda, allur sá loforðaflaumur er bara tómur. Það er ekkert á bak við það, það gerist ekkert sérstakt við að ganga í Evrópusambandið, það breytist ekki neitt að því leyti. Við erum búin að taka inn í gegnum Evrópskt efnahagssvæði alla kosti Evrópusambandsins.