140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki lokið máli mínu almennilega í fyrri ræðu þannig að ég ákvað að taka aftur til máls til að varpa ljósi á hvað hér er verið að fara fram með. Hæstv. utanríkisráðherra hefur talað fyrir því hér að við skulum taka við styrkjum frá Evrópusambandinu upp á 5–6 milljarða. Að vísu ber frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra ekki saman við orð hæstv. utanríkisráðherra því að utanríkisráðherra telur að við séum að taka á móti 6 milljörðum en í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra kemur fram að þetta séu 5 milljarðar. Það skal látið liggja milli hluta því að 1 milljarður til eða frá skiptir greinilega ekki svo miklu máli hjá þessari ríkisstjórn ef það snertir Evrópusambandið.

Það er áberandi í þessari þingsályktunartillögu, að mínu mati, þegar hún er lesin að lítið er gert úr okkur sem þjóð. Það er talað niður til okkar, t.d. er talað um Íslendinga og þjóðarbúið sjálft sem aðstoðarþega. Samkvæmt þingsályktunartillögu þessari heitum við aðstoðarþegar Evrópusambandsins. (Gripið fram í.) Maður gæti séð það fyrir sér, já, með fullri virðingu fyrir þeim sem eiga bágt, og að við séum algjörlega á hnjánum og Evrópusambandið sé að koma hér eins og frelsandi engill með fjármagn til að aðstoða okkur. Evrópusambandið lítur líklega svo á fyrst við erum orðin aðstoðarþegar sambandsins.

Ég hnaut um það þegar ég las þingsályktunartillöguna að verið er að skapa hér nokkur ný störf samkvæmt tillögunni, t.d. stendur í 4. gr. samningsins að aðstoðarþeginn skuli tilnefna landstengilið sem komi fram sem fulltrúi aðstoðarþegans gagnvart framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Sá fulltrúi skuli vera háttsettur embættismaður hjá stjórnvöldum eða innan stjórnsýslu aðstoðarþegans.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni er búið að eyrnamerkja þarna mjög góða stöðu aðila sem skal vera háttsettur innan stjórnsýslunnar. Væri gaman að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hverjum þessi staða er eyrnamerkt því að þarna er þetta nánast persónugert. Þessi háttsetti embættismaður sem á að vera landstengiliður fyrir okkur sem aðstoðarþega skal tryggja heildarsamræmingu stuðningsaðgerða og tryggja að náin tengsl haldist milli framkvæmdastjórnarinnar og aðstoðarþegans, sem erum við, bæði með tilliti til umsóknarferlisins og vegna aðstoðar við umsóknarríki ESB samkvæmt reglum IPA.

Í þessari þingsályktunartillögu er verið að hnýta saman hagsmuni Íslendinga og Evrópusambandsins og verið að gera okkur samræmd og ómissandi fyrir Evrópusambandið, því að eins og ég fór yfir í fyrri ræðu minni skal Ísland samkvæmt tillögu þessari standa með Evrópusambandinu komi til málssóknar hér á landi. Við erum búin að afsala okkur dómsvaldinu eina ferðina enn í samningum þar sem ríki Evrópusambandsins og Evrópusambandið sjálft koma að lagasetningu hér á landi og undir allt þetta skrifa alltaf íslenskir embættismenn. Skrifað var undir slíkan samning í júlí í fyrra, dómsvaldinu, löggjafarvaldinu er hent út um gluggann eins og í Icesave-samningnum og allt er þetta borið hingað inn fyrir Alþingi Íslendinga og okkur þingmenn. Hér á allt að renna í gegn og hæstv. utanríkisráðherra er bara frekar hissa yfir því að þær þingsályktunartillögur sem hann lætur rúlla í gegnum þingið að kröfu Evrópusambandsins skuli ekki fá betri móttökur.

Í 5. gr. er mjög athyglisvert að lesa hverjar almennu reglurnar um fjárhagslega aðstoð skulu vera. Þær eru í mörgum liðum og ganga allar út á það að við skulum lúffa fyrir Evrópusambandinu. — Frú forseti. Nú er tími minn aftur búinn, hann líður svo hratt. — Ég hvet fólk til að lesa 5. gr. Þetta mál er komið á það stig að nú mun það fara frá þinginu og líklega til utanríkismálanefndar. Málið er ekki fullafgreitt hér, kannski tekur það breytingum í nefndinni, en ég boða mikla umræðu af minni hálfu þegar það (Forseti hringir.) kemur til síðari umr. því að hér er verið að taka á móti peningum frá Evrópusambandinu sem við eigum alls ekki að taka við því að þetta er aðlögunarferli en ekki umsóknarferli.