140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér koma fram miklar andstæður í orðum hæstv. ráðherra þegar hann segir að þjóðin vilji ekki láta segja sér fyrir verkum því það var akkúrat það sem meiri hluti Alþingis gerði. Hann sagði þjóðinni fyrir verkum, hann ákvað að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið án þess að spyrja þjóðina einu orði um hvort hún vildi það.

Af hverju vildi ekki meiri hlutinn og hæstv. ráðherra leyfa þjóðinni að taka ákvörðun um hvort hefja ætti þetta ferli? Af hverju treysti hæstv. ráðherra þjóðinni ekki til þess? Var það vegna þess að hann taldi þjóðina illa upplýsta? Taldi hann að hann mundi tapa þeirri kosningu? Var það vegna þess að hann taldi að þjóðin þyrfti að fá betri tíma til að hugsa sig um? Hvers vegna vildi hæstv. ráðherra ekki leyfa þjóðinni að ákveða þetta?

Ég tel það mjög alvarlegt ef hæstv. ráðherra lýsir því yfir að þjóðin sé svo illa upplýst um Evrópusambandið að hún geti ekki tekið ákvörðun um það hvort hún vilji hefja viðræður eða ekki.