140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

tollalög.

367. mál
[18:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tollalögum sem dreift var á þinginu á síðasta ári. Hér er um að ræða minni háttar breytingar sem hafa þann tilgang að auðvelda starfsemi tollyfirvalda án þess að auka reglubyrði innflytjenda.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að gildistími bindandi álita um tollflokkun verði sex ár í stað þess að álitin gildi ótímabundið.

Í öðru lagi er lagt til að sjö daga frestur hraðsendingafyrirtæka til að skila inn aðflutningsskýrslum til tollstjóra verði felldur niður, en óbreytt ákvæði er talið geta skapað hættu á að ólögleg eða leyfisskyld vara komist inn í landið. Samhliða mun tollstjóri grípa til aðgerða til að tryggja áframhaldandi hraðan afgreiðslutíma hraðsendinga.

Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að flytja vöru úr umflutningsgeymslu yfir í annars konar geymslur fyrir ótollafgreiddar vörur. Samkvæmt núgildandi lögum er slík færsla á vöru í umflutningi óheimil. Breytingunni er ætlað að bæta rekstrarskilyrði umflutningsgeymslna án þess þó að dregið verði úr möguleikum til tolleftirlits.

Í fjórða lagi er lagt til að frestur tollstjóra til að kveða upp úrskurð við endurákvörðun aðflutningsgjalda verði lengdur úr 30 dögum í 60 daga frá lokum þess frests sem innflytjanda var veittur til andmæla. Þau mál sem eru til umfjöllunar hjá tollstjóra geta oft og tíðum verið tímafrekari en svo að umræddur 30 daga frestur nægi til að fullvinna málin.

Í fimmta lagi er lagt til að upphafstímamark dráttarvaxta vegna vangreiddra aðflutningsgjalda sem stafa af endurákvörðun verði það sama óháð því hvort tollafgreiðsla fer fram með rafrænum eða skriflegum hætti. Breytingunni er ætlað að samræma upphafstímamark dráttarvaxta þannig að það verði gjalddagi aðflutningsgjalda en þó þannig að dráttarvextir reiknist ekki lengra en tvö ár aftur í tímann.

Í sjötta lagi eru lagðar til auknar heimildir til gjaldtöku af hálfu tollstjóra þegar óskað er viðveru tollvarða utan almenns afgreiðslutíma.

Að lokum er að finna í frumvarpinu nokkrar tillögur sem ætlað er að lagfæra texta laganna til skýringar og samræmis án nokkurra efnisbreytinga.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu. Ég vil geta þess að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun leggja fram frumvarp innan tíðar um tollkvóta á landbúnaðarafurðum.