140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

tollalög.

367. mál
[18:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi gildistímann er ég ekki alveg viss um að ég hafi skilið spurninguna nákvæmlega rétt, en auðvitað er það þannig að ef lögum er breytt virka þau ekki aftur á bak heldur virka þau bara frá þeim tíma sem þau taka gildi. Ég átta mig ekki alveg á spurningunni. Kannski kemur hv. þingmaður betur inn á hana á eftir þannig að ég skilji hana betur.

Ég er sammála hv. þingmanni varðandi vöruflutning á netinu. Það er ætlunin að samræma þetta einmitt til að gera vöruflutninga á netinu liprari. Þetta er máti sem fleiri og fleiri nota og þarf að vera öruggur og lipur. Það þarf að samræma hann og gera hann aðlaðandi þannig að hann standi alla vega jafnfætis eldri vöruflutningum.