140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að ræða auðlindamálin og vekja í leiðinni athygli þingheims á minnisblaði nefndar um stefnumörkun í auðlindamálum ríkisins sem birt var í gær. Þessi skýrsla fjallar meðal annars um auðlindarentuna eða auðlindaarðinn. Það er auðvitað ótrúlegt merki um það hvernig almannahagsmunir hafa verið fyrir borð bornir í þessu landi árum og áratugum saman að við skulum hér, árið 2012, vera að velta fyrir okkur hvernig við eigum að tryggja að arðurinn af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar skili sér í sameiginlega sjóði landsmanna.

Við höfum verið með fiskveiðistjórnarkerfi í landinu þar sem einkaaðilar í útgerð hafa einfaldlega tekið til sín bróðurpartinn af auðlindaarði þjóðarinnar í skjóli þess að stjórnvöld hafa vanrækt varðstöðuna um almannahagsmuni áratugum saman.

Hér eru verulegir fjármunir undir. Eins og kemur fram í þessu minnisblaði er vitnað til þess að árið 2009 hafi Hagstofa Íslands áætlað að auðlindaarður í sjávarútvegi hafi numið 20 milljörðum kr. það ár. Sú fjárhæð á vonandi bara eftir að hækka á komandi árum með auknum þorskkvóta og almennt betri rekstrarafkomu greinarinnar. Sambærilegt mat hefur ekki verið gert um orkugeirann en óhætt er að fullyrða að ef raforkuverð fylgir þróun raforkuverðs í Evrópu séum við einnig þar að tala um milljarðatugi í auðlindaarði þjóðarinnar á komandi árum.

Stóra málið er að nefnd um stefnumörkun ríkisins í auðlindamálum er komin vel á veg með að skilgreina hvernig fara skuli með auðlindaarð af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Hún mun skila af sér endanlegum niðurstöðum fyrir 1. júní nk. og þar er meiningin að leggja fram útfærðar tillögur um það hvernig fara eigi með gjaldtöku þannig að þjóðin fái loksins sanngjarnan hlut auðlindaarðsins í sameiginlega sjóði. Þar er mikilvæg hugmyndin um auðlindasjóð til að það sé algerlega gagnsætt í framtíðinni hver auðlindaarðurinn af þjóðarauðlindum er á hverju ári og hvernig honum er ráðstafað. Það að sýna auðlindaarðinn með skýrum hætti í ríkisreikningi, svo sem auðlindasjóði, er líka nauðsynleg forsenda þess að auðlindaarðurinn (Forseti hringir.) verði aldrei tekinn af þjóðinni aftur til að þjóna hagsmunum einstakra atvinnugreina á kostnað almennings.